Jón Magnús læknir sneri aftur á bráðamóttökuna: „Það sló mig á vöktum helgarinnar“

Jón Magnús Kristjánsson læknir sneri aftur á vaktir á bráðamóttöku Landspítalans eftir hálfs árs fjarveru, hann segist vera sleginn yfir ástandinu á deildinni.

„Það sló mig á vöktum helgarinnar að þrátt fyrir mikla umræðu síðustu mánuði um heilbrigðiskerfisins og bráðamóttökunnar að ekkert hefur breyst þá 6 mánuði sem ég var í burtu. Það hefur í raun ekkert breyst heldur síðustu árin þar á undan þrátt fyrir endurteknar skýrslur og neyðaróp starfsmanna,“ segir hann í færslu á Facebook. „Enn eru 20-30 innlagðir sjúklinga á hverjum tíma á bráðamóttökunni sem fá ekki pláss á legudeildum.“

Hann segir að staðan leiði til nokkurra hluta, þar á meðal að „þegar þú eða aðstandandi þinn kemur bráðveikur á deildina er meiri líkur en minni til þess að þú fáir bekk á ganginum til að byrja með, þó þú sért með slæma verki eða er óglatt. Þar þarftu að segja sjúkrasöguna þín og læknirinn mun gera á þér líkamsskoðun án viðeigandi næðis.“

Jón Magnús bætir við: „Ef þú þarft að leggjast inn á spítalann færðu ekki þá sérhæfðu legudeildarþjónustu sem þú þarft á að halda þar sem þú kemst ekki á deildina. Að meðaltali tekur tæpan sólarhring áður en þú kemst á legudeild og á meðan ertu annað hvort í 8-9 manna fjölbýli eða jafnvel í gluggalausu herbergi.“

Þá er lítill tími til að sinna þér:

„Það eru töluverðar líkur á því að þú fáir ekki mikilvæg lyf á réttum tíma, að þú þurfir að bíða eftir verkjalyfjum vegna þess að starfsfólkið hefur ekki undan að sinna bæði heilli legudeild og bráðaþjónustunni. Jafnvel getur þú lent í því að missa þvag eða hægðir í rúmið ef þú þarft aðstoð við að komast á salerni af sömu ástæðu.“

Hann gagnrýnir að svo virðist sem ekkert muni breytast fyrr en búið sé að byggja nýjan meðferðarkjarna við Hringbraut:

„Núna er korter í kosningar og allir stjórnmálamenn keppast við að lofa öllu fögru en í raun er ekkert að gerast. Er okkur sem þjóðfélag orðið alveg sama um þá þurfa þjónustu bráðamóttökunnar svo lengi sem við lendum ekki í því sjálf?“