Jón Gunnarsson ætlar að reyna við annað sætið að nýju.

Jón Gunnarsson alþingismaður ætlar að reyna við annað sætið hjá Sjálfstæðisflokknum í Kraganum að nýju. Hann situr nú í þriðja sæti á lista flokksins. Síðast þegar haldið var prófkjör í kjördæminu náði Jón öðru sæti en honum var ýtt niður í þriðja sætið því flokksforystan var í öngum sínum yfir því að einungis karlar höfnuðu í fimm efstu sætum prófkjörsins. Það þótti ekki heppileg uppstilling og því var Bryndís Haraldsdóttir færð úr sjötta sæti í annað og öðrum ýtt niður samsvarandi.

Flokkurinn tapaði einu þingsæti í kjördæminu frá kosningunum þar á undan. Það leiddi til þess að Vilhjálmur Bjarnason náði ekki kjöri og féll út af Alþingi. Hann hefur átt mjög erfitt með að sætta sig við þá niðurstöðu eins og reyndar margir stuðningsmenn flokksins sem telja Vilhjálm hafa meira fram að færa en flestir núverandi þingmenn flokksins.

Jóni Gunnarssyni ætti að vera ljóst að flokkurinn verður að stilla upp konu í næsta sæti á eftir formanninum, Bjarna Benediktssyni. Jón Gunnarsson mun ekki fá það sæti, jafnvel þó honum tækist að ná þeim árangri í prófkjörinu. Bryndís Haraldsdóttir mun reyna við annað sætið og þess er að vænta að flokkurinn reyni að tefla fram fleiri konum í þann slag. Ýmsar konur hafa verið nefndar eins og Karen Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi og Ásgerður Halldórsdóttir, fráfarandi bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. Þá hlýtur ungt fólk í kjördæminu að freista þess að koma einhverri konu úr sínum röðum í öruggt sæti.

Öruggu sætin eru hins vegar ekki mörg. Flokkurinn er nú með fjóra þingmenn í kjördæminu, tapaði einu sæti síðast, og alls ekki er talið að fullvíst sé að takast megi að verja öll fjögur þingsætin. Bjarni Benediktsson á fyrsta sætið víst. Þá vaknar spurningin hverjir ná hinum þremur (eða jafnvel bara tveimur) sætunum. Konu verður tryggt annað sætið. Þeir Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason eru báðir á sjötugsaldri. Vilhjálmur Bjarnason hefur þegar lýst yfir framboði sínu og talið er að mikil stemning sé fyrir kjöri hans. Fólki fannst að illa hafi verið farið með Vilhjálm síðast, hann er talinn ferskari en þeir sem nú sitja í þessum sætum og talið er að hann nái frekar til breiðari hóps en þeir Jón og Óli Björn ná til. Jafnvel er talið að nú sé svo komið að þeir eigi ekkert annað bakland en það sem kýs flokkinn hvort sem er.

Ekki þyrfti að koma á óvart að Vilhjálmur Bjarnason hlyti meira fylgi í prófkjörinu en þeir Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason. Þeirra tími í stjórnmálum kann að vera liðinn.

Talsverð umræða hefur verið innan Sjálfstæðisflokksins um að brýnt sé að yngja upp í þingflokknum og eins að fjölga konum eitthvað. Fimm af núverandi sextán þingmönnum Sjálfstæðisflokksins eru yfir sextugt. Jón Gunnarsson er sjálfur 64 ára eins og Kristján Þór Júlíusson og Ásmundur Friðriksson. Páll Magnússon er 66 ára og Brynjar Níelsson og Óli Björn Kárason verða 61 árs á þessu ári. Þó þessi umræða sé í gangi má vitanlega velta því fyrir sér hvort reynsla og lífreynsla vega ekki þungt saman borið við viðhorf þeirra sem eru miklu yngri eru. Til dæmis er ekki víst að sextugur dómsmálaráðherra hefði hringt í lögreglustjórann í Reykjavík tvisvar á aðfangadag eins og þrítugi núverandi ráðherrann gerði.

Jón Gunnarsson hefur verið talsvert á ferðinni að tala fyrir því að ýta þurfi eldri félögum sínum út af framboðslistum flokksins. Það hefur þótt sæta furðu sérstaklega í ljósi þess að hann tilheyrir óneitanlega hópi „hinna gömlu“ og hefði því átt að ganga á undan með góðu fordæmi og víkja sjálfur af lista flokksins. En sú er ekki niðurstaðan. Hinn 64 ára gamli þingmaður telur sig ennþá eiga eitthvað ógert á vettvangi stjórnmálanna.

Hvort kjósendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kraganum eru sammála því kemur í ljós innan nokkurra vikna.