Jón Grétar heppinn að hafa ekki slasast verr – Svona geta slysin orðið á hlaupa­hjóli

„Þetta fór betur en það leit út fyrir í fyrstu,“ segir Eva Rut Vil­hjálms­dóttir, móðir ungs drengs, sem slasaðist nokkuð illa þegar hann datt á hlaupa­hjóli í síðustu viku.

Eva skrifaði færslu um málið á Face­book-síðu sína þar sem hún vakti at­hygli á mikil­vægi þess að vera með hjálm. Mann­líf greindi fyrst frá.

„Fyrir viku síðan gerðist það að Jón Grètar datt af hlaupa­hjólinu sínu. Í þetta sinn fór hann EKKI sem hraðast en hann var að reiða vin sinn þegar þeir misstu jafn­vægið,“ segir Eva í færslunni og bætir við að sem betur fer sé sonur hennar alltaf með hjálm þegar hann fer út að hjóla eða á hlaupa­hjól. Kveðst Eva vera hörð á því að hjálmurinn hafi bjargað honum þetta kvöld.

„Hann slasaðist, það þurfti að sauma hann, hann er ný­farinn að geta talað skýrt, tennurnar sluppu og það er hjálminum að þakka! Derið framan á tók höggið.“

Í sam­tali við Hring­braut segir Eva að henni finnist allt of al­gengt að börn séu hjálm­laus og viður­kennir hún að hún fái sting í hjartað þegar hún sér barn á hjóli eða öðru farar­tæki án hjálms. Eva tekur að lokum fram að auð­vitað hefði sonur hennar ekki átt að reiða vin sinn og hann muni læra af þeim mis­tökum.

„Hann gerir það alla­vega ekki í bráð, því get ég lofað,“ segir Eva sem segir að slysin geri ekki boð á undan sér. Um leið minnir hún á mikil­vægi þess að nota hjálm, alltaf.

Fyrir viku síðan gerðist það að Jón Grètar datt af Hlaupahjólinu sínu. Í þetta sinn fór hann EKKI sem hraðast en hann...

Posted by Eva Rut Vilhjálmsdóttir on Mánudagur, 24. ágúst 2020