Jón Gnarr var hoppandi illur á Krua Thai: „Ég var næstum farinn að grenja“

14. janúar 2021
15:52
Fréttir & pistlar

Jón Gnarr, grín­isti og fyrr­verandi borgar­stjóri, var mjög mis­boðið þegar pöntun á Krua Thai, sem hann taldi sig hafa lagt inn, fannst ekki. Nokkuð löngu síðar kom í ljós að Jón hafði gert ó­trú­leg mis­tök. Hann sagði frá þessu í út­varps­þættinum Tví­höfða og er fjallað um málið á vef RÚV.

At­vikið átti sér stað fyrir nokkrum árum en Jón var fastakúnni á Krua Thai í Tryggva­götu. Það var svo kvöld eitt að Jón hugðist leggja inn stóra pöntun, um það bil tuttugu rétti, að hann hringdi á staðinn. Af­greiðslu­stúlka sem tók á móti pöntuninni virtist eiga í stökustu erfið­leikum með að skilja hann.

„Hún þurfti að tví­taka og þrí­taka það sem ég var að segja. Eins og hún væri ekki með réttina og hún kannaðist ekkert við réttina sem þau voru með á mat­seðlinum.“

Jón tók fram að hann hafi verið orðinn nokkuð pirraður þegar hún fór að vé­fengja pöntunina, en allt kom fyrir ekki og sagði stúlkan að lokum að pöntunin yrði til­búin eftir hálf­tíma.

Jón vissi ekki hvert hann ætlaði þegar hann mætti á Krua Thai og var tjáð að engin pöntun fyndist á hans nafni. Jón lét vel í sér heyra í kjöl­farið og sagðist versla þarna á næstum hverjum degi og það væri aldrei neitt mál. Kallað var á eig­anda staðarins, yndis­lega konu sem Jón hafði oft hitt áður, og hellti hann sér yfir hana líka. Konan bað Jón af­sökunar, tók pöntunina niður og sagðist ætla að af­greiða hana strax. Að því loknu rétti hún Jóni réttina, tvo stút­fulla poka af mat, og þver­tók hún fyrir að taka greiðslu fyrir.

Þegar Jón var kominn heim, sestur við matar­borðið og „ropandi saddur“ að eigin sögn eftir hrís­grjóna- og kjúk­linga­át, hringdi síminn hjá honum. „Ég svara símanum og þá er ein­hver stúlka sem segir: „Já, þetta er Tælenska mat­stofan, það er pöntun hérna fyrir Jón Gnarr sem hefur ekki verið sótt.” Svo telur hún upp allt sem ég hafði pantað. Þá er það annar tælenskur staður í Skeifunni.“

Jón út­skýrði að þessi leiðu mis­tök hefðu or­sakast þannig að hann átti alltaf í vand­ræðum með að staf­setja Krua Thai þegar hann fletti staðnum upp á Ja.is. Þegar honum tókst að slá það rétt inn kom alltaf upp: Tælenskt eld­hús Krua Thai. Sér til hægðar­auka var hann farinn að leita að orðinu taí­lenskt, en í þessu til­felli hringdi hann á rangan stað.

Úr varð að Jón fór á Krua Thai í Tryggva­götu, eftir að hafa borðað taí­lenskan mat í öll mál í nokkra daga, þar sem hann bað allt starfs­fólkið af­sökunar. „Þetta var á mörkum þess að vera ras­ismi. Mér var svo mis­boðið,“ segir Jón sem sá mikið eftir þessu öllu. „Ég var næstum því farinn að grenja, ég skammaðist mín svo mikið.”

Hægt er að hlusta á kostulega frásögn Jóns hér.