Jón Gnarr rifjar upp vandræðaleg fyrstu kynni úr kosningabaráttunni

Jón Gnarr, grínisti og fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur, rifjar í viðtali sínu í helgarblaði Fréttablaðsins upp skrautlega sögu af fyrstu kynnum sínum við þjóðþekkta konu. Atvikið átti sér stað þegar Jón var mættur upp á Stöð 2 til að kynna kvikmynd sína, Bjarnfreðarson þar sem hann rakst á konu nokkra á leið úr sminki.

„Hún þekkti mig augljóslega en ég vissi ekki hver hún var. Hún heilsaði mér og spurði mig hvort ég væri þá búinn að stofna stjórnmálaflokk. Ég játaði því og hún sagði þá að við myndum sjást í baráttunni,“ segir Jón.

Þegar að Jón settist í sminkstólinn og spurði hver þetta hefði nú verið rak sminkan upp stór augu og spurði hann hvort hann væri að djóka.

„Þá sagði hún mér að þetta væri Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur. Ég vissi þá ekki einu sinni hver væri borgarstjórinn í Reykjavík! Fólk fattar stundum ekki hvað ég er mikið út úr kortinu. Sumir hugsa: „Hann getur nú ekki verið alveg svona ruglaður,“ en ég er það.“