Jón Gnarr lenti í ótrúlegu atviki á flugvelli: „Nú er ég algjörlega farinn“

„Ég get svo sem sagt ykkur frá því þegar ég var í Amsterdam sem ungur maður til þess að fá tækifæri til að prófa mismunandi tegundir af hassi.“

Svona hófst umfjöllun þúsundþjalasmiðsins Jóns Gnarr í útvarpsþættinum Tvíhöfða á dögunum, þar sem hann sagði frá óvenjulegu atviki sem hann lenti í á flugvelli.

„Þessi ferð var gagngert farin til þess að fara á veitingastaðinn Bulldog, og prófa allskonar hass. Það varð til þess að ég missti af fluginu mínu heim aftur. Ég var því staddur á Schiphol-flugvelli og hringdi í mömmu og reyndi að ljúga að henni að þetta væri flugfélaginu að kenna,“ segir Jón

Hann segir móður sína hafa spurt hvort hann hafi verið að taka einhver lyf, en hann hafi svarað neitandi.

„Mamma keypti síðan flugmiða handa mér heim, en það var ekki fyrr en seinna um daginn eða kvöldið. Ég var algjörlega tímalaus. Ég var náttúrulega í miklum fráhvörfum af öllu þessu hassi. Ég sat þarna á Schiphol-flugvelli, og það voru tíu klukkutímar í flugið mitt, og ég sat þarna með eina íþróttatösku alveg kríthvítur í framan,“

Jón segist hafa nafn sitt sífellt kallað í kallkerfi flugvallarins, en það virðist hafa verið hugarburður. Hann mætti því í sífellu á upplýsingaborð og reyndi að komast að því hvers vegna nafn hans væri kallað upp.

„Ég var alltaf að standa upp og fara þarna í information desk að sýna vegabréfið mitt. Þau voru bara að verða hrædd við mig því ég var að koma aftur og aftur. Þau bara hristu hausinn og sögðu að þau hefðu ekkert verið að kalla á mig,“

Þá segist Jón hafa sofnað á flugvellinum, og þá gerðist svolítið sem verður að teljast óvenjulegt.

„Ég vakna við það að Mischelin-maðurinn potar í mig með priki. Ég opna augun mín og þá er ég þarna einn á flugvellinum. Það er enginn þarna nema ég og Mischelin-maðurinn.“ segir Jón, en þó virðist vera að veran sem var með honum á flugvellinum hafi ekki verið bókstaflegur Mischelin-maður, heldur eitthvað annað.

„Hann var alveg eins og Mischelin-maðurinn, með hring í kringum sig og langt prik, eitthvað plastprik sem hann potaði í mig með. Hann talaði ekkert, hann bara horfði á mig, og þá hugsaði ég: Nú er ég algjörlega farinn,“

Hann segir Mischelin-manninn hafa bent sér í ákveðna átt. Og hann fylgdi leiðbeiningum hans og á endanum tók lögreglan á móti honum. Ástæðan var sú að það hafði komið sprengjuhótun á flugvellinum og því hafði flugvöllurinn verið rýmdur og þessi umtalaði Mischelin-maður var sprengjuleitarmaður.

Í lok sögunnar bætti Jón við í léttum dúr: „Síðan hef ég oft farið til Amsterdam, en látið hassið vera, því ég veit að það er ekki ávísun á gott.“