Jón Gnarr biðst afsökunar á ummælum um jarðarfarir: „Ekki ætlun mín að særa nein“

Þúsundþjalasmiðurinn Jón Gnarr hefur boðist afsökunar á því að hafa farið fyrir á brjóstið á fólki með ummælum sínum um jarðarfarir.

Um helgina hefur Jón verið duglegur að tjá sig á Twitter, og þá helst um jarðarfarir.

„Mikið ofboðslega eru þessar hefðbundnu íslensku jarðarfarir leiðinlegar athafnir,“ skrifaði Jón til að byrja með og bætti síðar við:

„Mörgum hefur sárnað hvað mér leiðast jarðarfarir og hafa bent á að oft sé td. fín músík. mér leiðist mest þetta vemmilega lúterska jesútal sem er eins og e-ð Dale Carnegie lingó úr Guðfræðideildinni. og þegar ferilskráin er lesin. drottinnminndýri!“

Svo virðist sem þessi ummæli hafi farið fyrir brjóstið á einhverjum, hvort sem það séu aðstandendur eða fólk sem sér um að halda jarðarfarir. Því hefur Jón ákveðið að biðjast afsökunar.

Þó tekur hann fram að í geng um tíðina hefur honum fundist jarðarfarir leiðinlegar og veltir fyrir sér hvort ekki sé hægt að gera eitthvað til að lífga upp á þær.

„Það var ekki ætlun mín að særa nein með jarðarfararausi mínu og biðst fyrirgefningar ef ég hef gert það. en mér finnst þessar hefðbundnu útfarir bara oft svo leiðinlegar, helgislepjulegar og væmnar. má alveg vera smá sjó stundum og sörpræs í stað fyrirsjáanleika.“