Jón: Er þetta ekki komið gott? – Margrét: „Hvað með okkur sem viljum smitast?“

„Þegar búið er að bólusetja viðkvæmustu einstaklinganna og fólk allt niður undir fimmtugt er þá ekki kominn tími til að fólk fái að ráða því sjálft hvernig það hagar eigin sóttvörnum?“

Þessari spurningu varpar Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður fram á Facebook-síðu sinni. Jón, sem var lögmaður konu sem var skikkuð til að dvelja í farsóttahúsi um páskana, hefur haft sig nokkuð í frammi í umræðunni um kórónuveiruna undanfarna mánuði.

Ekki verður annað skilið á færslu Jóns að hann vilji að einstaklingsbundnar sóttvarnir, eins og til dæmis grímuskylda, verði gerðar valfrjálsar nú þegar búið er að bólusetja viðkvæmasta hópinn og bólusetningar ganga almennt vel.

Sitt sýnist hverjum um þessa hugmynd Jóns. Guðmundur Ólafsson hagfræðingur, gjarnan kallaður Lobbi, segir að einkaumferðarlög séu rugl.

Því svarar Jón svona: „Ég hélt minn kæri að skv. þinni pólitísku hugmyndafræði frá því í frumbernsku þá væri miðað við að treysta einstaklingunum í stöðugt meira mæli í anda hugmyndafræðinga eins og Alexandrovich Bakunin, en ég hélt að þú hefðir drukkið í þig kenningar hans. Er ekki svo kæri vinur.“

Guðmundur er stuttorður í svari sínu og segir einfaldlega að rugl verði ekki bætt með meira rugli.

Margrét Friðriksdóttir frumkvöðlafræðingur, semhefur talað gegn grímunotkun, blandar sér í málið. „Hvað með okkur sem viljum smitast og taka Ivermektín lyfið,“ segir Margrét sem fullyrðir að umrætt lyf drepi veiruna á innan við þremur sólarhringum og byggi um leið upp varanlegt mótefni. Spyr hún hvort hægt sé að panta lyfið einhvers staðar.

„Frelsi í lækningum á að vera sjálfsagður hlutur lýðræðislegu samfélagi. Þeir sem vilja þvinga fólk í þessa tilraunastarfsemi sem þessi kóvid bólusetning er, eru fasistar og fasismi er hættuleg hugmyndafræði.“

Á vef Lyfjastofnunar er fjallað um lyfið Ívermektín og þar er tekið skýrt fram að ekki ætti að taka umrætt lyf, hvorki það né önnur, sem forvörn eða til meðferðar við sjúkdómnum nema læknir hafi ávísað því og uppruni þess sé í samræmi við lög og reglur.

„Því ætti ekki að nota ívermektín við eða gegn COVID-19 þar sem niðurstaða um mat á ávinningi og áhættu liggur ekki fyrir. Nauðsynlegt er að endanlegar niðurstöður úr klínískum rannsóknum liggi fyrir áður en hægt er að fullyrða um öryggi lyfsins og verkun þess sem meðferð við eða forvörn gegn COVID-19.“

Þá segir að ýmsar aukaverkanir geti fylgt notkun lyfsins. „Nefna má útbrot, ógleði og uppköst, niðurgang og magaverki. Einnig bólgur í andliti og útlimum, aukaverkanir sem tengjast taugakerfinu svo sem svima, flog, og rugl. Þá getur skyndileg lækkun blóðþrýstings fylgt notkun lyfsins, alvarleg útbrot í húð komið fram, sem og lifrarskaði. Rannsóknir hafa einnig sýnt fækkun hvítra blóðkorna, og hækkandi gildi ýmissa efna í lifur.“