Jón Ársæll notar ekki farsíma: „Mér er sagt að þetta sé stórhættulegt“

Jón Ársæll Þórðarson, einn af okkar allra skemmtilegustu sjónvarpsmönnum, var í athyglisverðu spjalli í Síðdegisútvarpinu á dögunum. Í viðtalinu kom meðal annars fram að hann á ekki farsíma og hefur raunar aldrei átt slíkt tæki – ólíklegt sennilega flestum landsmönnum.

„Einhvern veginn beit ég í mig að nota ekki farsíma, en þetta er náttúrulega dálítið skrýtið að einhverju tæki skuli vera þröngvað upp á hvern einstakling í nútímasamfélagi. Hvað er þetta? Getum við ekki ráðið því hvað við erum með í vösunum,“ sagði hann í viðtalinu sem fjallað er um á vef RÚV.

Jón segist upplifa ákveðið frelsi að vera ekki með farsíma og þá hafi hann trú á því að notkun þeirra geti skapað hættu. „Mér er sagt að þetta sé stórhættulegt, að vera alltaf annað hvort með þetta við punginn eða heilabörkinn.“

Jón Ársæll situr ekki auðum höndum þessa dagana þó eilítið minna hafi farið fyrir honum en oft áður. Hann er að leggja lokahönd á athyglisverða heimildarmynd sem fjallar um leitina að gullskipinu á Skeiðarársandi, Hat Wapen van Amsterdam, sem fórst árið 1667. Þá er hann einnig að vinna að útvarpsþáttum um för Jóns Indíafara til Indlands árið 1615.