Jóhannes svarar Vig­dísi: Dökku rúðurnar í strætó ekki til að fela fáa far­þega

„Við kaupum bara þessa vagna með þessu gleri sem er sett í þá, þetta er örugg­lega ein­hver sólar­vörn, Mér dettur það helst í hug,“ segir Jóhannes S. Rúnars­son, fram­kvæmda­stjóri Strætó, í sam­tali við Hring­braut.

Vig­dís Hauks­dóttir, borgar­full­trúi Mið­flokksins, sagði frá því á Face­book í morgun að hún hefði fengið fyrir­spurn um það hvers vegna búið væri að setja dökkt gler í strætis­vagna og hvort það væri til að það myndi ekki sjást hvað eru fáir um borð.

„Þetta er nefni­lega mjög góð spurning - hvers vegna var gripið til þess ráðs? Varla getur það verið til þess að hlífa þeim sem þurfa að nota þetta úr­ræði - því það á jú að koma okkur öllum upp í strætó,“ sagði Vig­dís en Jóhannes segir að ekki sé búið að grípa til neinna ráð­stafana og setja dekkri rúður. „Þeir hafa bara komið svona til okkar,“ segir hann.

Vig­dís lét þessi orð falla í færslu þar sem hún tjáði sig um rök­ræður þeirra Sigur­borgar Óskar Haralds­dóttur, borgar­full­trúa Pírata og formanns skipu­lags- og sam­gönguiráðs, og Ólafs Guð­munds­sonar, vara­borgar­full­trúa Sjálf­stæðis­flokksins, í Bítinu á Bylgjunni í morgun. DV fjallaði um málið.

Þar tókust þau á um borgar­línu og strætó og sagði Ólafur að miklu fjár­magni hafi verið veitt til Strætó til að efla al­mennings­sam­göngur. Það hafi ekki gengið eftir. Sigur­borg sagði á móti að far­þegum hefði fjölgað.

„Það voru 4 prósent 2012 og það eru rúm 4 prósent núna og þó þú segir 5 prósent þá eru það ekki 8 prósent eins og að var stefnt. Þannig að ég kalla það ekki árangur,“ sagði Ólafur.

Hring­braut spurði Jóhannes út í það hvernig hefði gengið hjá Strætó nú þegar frekari sam­komu­tak­markanir hafa verið felldar úr gildi. „Við erum að vinna í að taka saman tölur þannig að ég er ekki alveg með það á hreinu, til­finningin er að þetta sé samt að aukast hægt og ró­lega.“