Jóhannes leitar að persónulegum Covid-sögum

Jóhannes Kr. Jóhannsson fréttamaður vinnur nú að gerð heimildaþáttaraðar um Covid-19 á Íslandi ásamt kvikmyndagerðarmanninum Sævari Guðmundssyni. Þeir leita nú að persónulegum sögum fólks sem hefur tekist á við Covid-veikindi og eftirmála þeirra.

„Frá því í mars hef ég og Sævar Guðmundsson unnið að heimildaþáttaröð um Covid-19 á Íslandi þar sem við höfum fylgst með störfum þríeykisins og samstarfsfólki þeirra í baráttunni við faraldurinn,“ segir Jóhannes á Facebook í dag.

Þeir félagar voru fyrir vestan þegar faraldurinn náði hámarki þar og náðu utan um það „þegar veiran setti lítið samfélag á hliðina og hvernig íbúarnir tókust á við það“.

„Við fylgdumst með starfi hjúkrunarfræðings á gjörgæsludeild í fyrstu bylgju faraldursins og sjúklingum í Bolungarvík sem veiktust mjög illa - og svona mætti lengi telja,“ heldur Jóhannes áfram. „Kórónuveiran hefur sett líf margra úr skorðum og við leitum að persónulegum sögum fólks sem hefur tekist á við Covid veikindi og eftirmála þeirra.“

Þeir vilja þá líka fá sögur frá aðstandendum, fólki sem hefur unnið í framlínunni og í raun öllu fólki sem hefur sögu að segja af faraldrinum og afleiðingum hans. „Við vonumst eftir að fólk hafi samband við okkur í gegnum netföngin [email protected] eða [email protected].“

Persónulegar sögur úr Covid Frá því í mars hef ég og Sævar Guðmundsson unnið að heimildaþáttaröð um Covid-19 á Íslandi...

Posted by Johannes Kr Kristjansson on Monday, 10 August 2020