Jóhannes: Hjónin sjá fram á gjaldþrot – Áttu innan við 200 þúsund á banka­reikningi

Hjón, sem komin eru að eftir­launa­aldri, og reka lítið fjöl­skyldu­hótel fjarri höfuð­borginni sjá fram á gjald­þrot þess. Verði það að veruleika mun það soga til sín eignir þeirra ofan í gjald­þrotið en hjónin áttu innan við tvö 200 þúsund krónur á banka­reikningi um síðustu mánaða­mót.

Þetta segir Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjónustunnar, í pistli á Face­book-síðu sinni. Þar birtir hann nokkrar ör­sögur úr ferða­þjónustunni og er sagan hér að ofan ein þeirra. Hann segir að sögur sem þessar séu allar að gerast þessa dagana og eru í raun sýnis­horn af þeim sím­tölum sem hann fær á hverjum degi.

„Leið­sögu­maður sem rekur lítið ferða­þjónustu­fyrir­tæki með konunni sinni og þurfti að fara á at­vinnu­leysis­bætur strax í vor datt af tekju­tengdu bótunum í lok ágúst. Hann fær ekki fram­lengingu tekju­tengdu bótanna úr þremur í sex mánuði því að þær gilda bara frá 1. septem­ber, nokkrum dögum eftir að hann datt af þeim.“

„Hjón sem reka lítið jeppa­ferða­fyrir­tæki á Suður­landi sjá fram á að missa eigur fyrir­tækisins og vera tekju­laus á at­vinnu­leysis­bótum í vetur. Fyrir­tækið sem hefur staðið undir lifi­brauði fjöl­skyldunnar er án að­stoðar lík­lega búið að vera. Heimili fjöl­skyldunnar er veð­sett fyrir fjár­festingum fyrir­tækisins. Þau vita ekki hvað tekur við.“

„Hjón sem reka lítið gisti­heimili á lands­byggðinni lækkuðu sín eigin laun veru­lega strax í vor til að geta greitt starfs­fólkinu sínu full laun sam­kvæmt samningum. Þau svo þurftu að segja fólki upp og fara sjálf á at­vinnu­leysis­bætur í ágúst - en af því þau voru búin að lækka launin sín þá eiga þau mjög skertan bóta­rétt - fá ekki nema um 100 þúsund krónur hvort á mánuði. Þau vita ekki hvernig þau eiga að komast í gegn um veturinn. Þetta er að gerast í sam­bæri­legum fjöl­skyldu­fyrir­tækjum um allt land.“

Jóhannes segir að þetta fólk sé ferða­þjónustan og það og mikill fjöldi annarra ein­stak­linga í sömu stöðu þurfi að­stoð.

„86% af öllum ferða­þjónustu­fyrir­tækjum eru svona fyrir­tæki - lítil fyrir­tæki með innan við 10 starfs­menn. Þetta eru fyrir­tækin sem hafa byggt upp ný at­vinnu­tæki­færi og bætt lífs­kjör fólks á lands­byggðinni. Þetta er fólkið sem tók frum­kvæði og lagði eignir fjöl­skyldunnar undir til að búa til eitt­hvað nýtt og skapa verð­mæti fyrir sig, ná­granna sína og sam­fé­lagið. Það liggja gífur­leg verð­mæti fyrir okkur öll í því að þau nái að lifa veturinn og rísa upp á ný á næsta ári.“