Jóhannes botnar ekkert í borginni: „Þetta þykir mér hreint súrrandi galið mál“

2. júlí 2020
13:28
Fréttir & pistlar

Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjónustunnar, er yfir sig hissa á því hvernig sam­skipta­málum Reykja­víkur­borgar við borgarana er háttað.

Jóhannes skrifar at­hyglis­verða færslu á Face­book þar sem hann greinir frá því að ný­lega hafi honum borist fjögur pappírs­bréf frá byggingar­full­trúa Reykja­víkur­borgar þar sem honum er til­kynnt um af­greiðslu máls.

„Í öllum til­fellum er til­kynnt að málinu sé frestað. Til þess þykir borgar­kerfinu nauð­syn­legt að senda mér sér­stakt bréf á pappír í hvert sinn, undir­ritað og smeygt í um­slag sem svo er póst­sent til mín á skrif­stofuna. Í hverju um­slagi eru tvö A4 blöð. Öll bréfin til­taka að af­rit sé sent á fjóra aðra aðila. Póst­berinn hefur því undan­farnar vikur borið heil tuttugu pappírs­bréf (40 A4 síður af pappír) í Hús at­vinnu­lífsins til að til­kynna að byggingar­full­trúi hafi frestað máli sem hann hefur með höndum. Þetta þykir mér hreint súrrandi galið mál,“ segir hann.

Hann segist með engu móti geta skilið hvernig þetta „snar­úrelta verk­lag“ í sam­skiptum kerfis og borgara sé enn til staðar. Bendir hann á að öku­skír­teini hans sé komið inn í 21. Öldina og jafn­vel um­boðs­maður Al­þingis sé hættur að nota rit­vél. Þá séu mörg ár liðin síðan Raf­rænni Reykja­vík var ætla að ryðja braut í raf­rænni stjórn­sýslu.

„Fékk byggingar­full­trúi borgarinnar ekki memóið? Miðað við fjölda bréfa sem þarf að skrifa, prenta út, undir­rita, sleikja ofan í um­slag og póst­leggja í þessu eina máli hlýtur að vera starfs­maður í fullu starfi við að senda út bréf um á­kvarðanir byggingar­full­trúa. Það hlýtur að vera fljót­legt og ein­falt fyrir borg sem hefur fyrir löngu sett sér stefnur um um­hverfi og raf­ræn sam­skipti að kippa þessu snar­lega í liðinn. barasta nó problem. Væri það ekki bara gott mál í já­kvæða kladdann fyrir árið 2020?“