Jóhanna sprittaði alla fleti en það dugði ekki til - Greindist með COVID-19 á miðvikudag

„Kosturinn við það þegar allir á stóru heimili sýkjast er að umgengni um sameiginleg rými er leyfileg, matartímar verða minna vesen og allir geta notað sama baðherbergið,“ segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir pistlahöfundur í bakþönkum Fréttablaðsins í dag.

Í pistlinum greinir Jóhanna frá því að hún hafi greinst með COVID-19 á miðvikudag, en eins og kunnugt er hafa býsna mörg smit komið upp á landinu undanfarna daga.

„Þegar maðurinn minn greindist á mánudaginn sat ég á fundi með sjö manneskjum sem nú eru komnar í sóttkví (aftur, afsakið). Ég hljóp út, fór rakleiðis heim og sagði honum að halda sig inni í svefnherbergi. Svo sótthreinsaði ég alla fleti og taldi mig bara vera með þetta nokkuð mikið á hreinu. Hanskar og grímur, matur á bakka fyrir framan dyrnar að fangaklefa sjúklingsins,“ segir Jóhanna.

Jóhanna segir að þetta stutta sprittstríð hafi augljóslega verið tapað þegar bæði hún og sonur hennar greindust á miðvikudag.

„Á fimmtudagsmorgun fóru tvö börn á heimilinu til viðbótar í prufu. Vonandi sleppur elsta barnið alveg,“ segir hún og nefnir að það séu ákveðnir kostir fólgnir í því þegar allir á stóru heimili smitast.

„Gallinn, fyrir utan að við erum hundveik, er að við erum upp á aðra komin með vistir. Sem betur fer á ég góða systur sem skilur mat, verkjalyf og annað sem okkur sárvantar allt í einu, eftir við útidyrahurðina. Eins og bragðaref, sem bráðliggur á ef bragðskynið skyldi nú fjúka í kófið með öllu hinu. Sjáumst 1. Október,“ segir Jóhanna í pistli sínum.