Jóhanna enn að jafna sig eftir að hafa heyrt samtal miðaldra hjóna í Bónus

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri og fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar, segist enn vera að jafna sig eftir að hafa heyrt samtal miðaldra hjóna í Bónus á dögunum.

Jóhanna segir frá þessu í bakþönkum Fréttablaðsins í dag, en eins og kunnugt er hefur talsvert verið fjallað um hættuna af gróðureldum í þeirri þurrkatíð sem hefur verið á suðvesturhorni landsins undanfarnar vikur. Nú þegar hafa nokkrir eldar kviknað og er skemmst að minnast brunans í Heiðmörk á dögunum sem nokkuð erfiðlega gekk að ráða við.

Jóhanna er eigandi sumarhúss í Skorradal en þar hafa sumarhúsaeigendur margoft viðrað áhyggjur sínar af mögulegum gróðureldum.

Í pistlinum segir Jóhanna frá því að hún hafi eytt nokkrum dögum í að raka sinu, saga niður tré í kringum sumarhúsið og þá hafi hún gengið svo langt að safna saman þurru laufi.

„Það er ekki mjög ís­lenskt, enda erum við svo óvön trjám að það má helst ekki skerða greinar þeirra, hvað þá saga þau niður. Ég fór sem sagt um hlíðina með sög í vinstri og hrífu í hægri, eins og kona gerir á upp­stigningar­dag. Sumir myndu segja eins og eldur í sinu,“ segir Jóhanna sem hvetur fólk til að taka enga óþarfa áhættu.

„Ég er því enn að jafna mig eftir að hafa, ó­vart vel að merkja, heyrt á tal mið­aldra hjóna í Bónus í hinum eðla bæ Borgar­nesi. Þau töluðu í hálfum hljóðum (svona heyri ég ó­skap­lega vel) um hvað þau ættu að grilla í bú­staðnum, kalda pipar­sósu með grill­steikinni, og mikil­vægi þess að muna eftir að kaupa kol og grill­vökva. Nú gæti for­sjár­hyggju­fólk haldið því fram að skyn­sam­legast væri að læsa kol og grill­vökva inni á meðan við bíðum eftir hinu eðli­lega ís­lenska rigningar­sumri. Hinn mögu­leikinn er auð­vitað að læsa þessi hjón inni þar til byrjar að rigna,“ segir Jóhanna Vigdís sem bætir við að íslenska rigningarsumarið muni koma.

„Þangað til skulum við ekki vera grillandi kjána­prik, um­kringd þurri sinu og brakandi árs­gamalli lúpínu. Það er líka miklu meiri stemning að grilla í grenjandi rigningu.“