Jakob Bjarnar veður í hags­muna­tengsl á RÚV: „Ís­lendingar eru prinsipplaus þjóð“

Stjörnu­blaða­maður Vísis, Jakob Bjarnar, lætur Ríkis­út­varpið heyra það í pistil á Face­book þar sem hann veltir því upp hvort það sé eðli­legt að dag­skrár­gerðar­menn starfi sam­hliða sem tón­listar­menn á kvöldin.

„Fæstum þætti eðli­­legt ef ég starf­rækti veitinga­­stað á kvöldin en fjallaði sem blaða­­maður um veitinga­­geirann vítt og breytt á daginn. Og gæfi mig út fyrir að vera fag­­legur í því. En þetta er ná­­kvæm­­lega sam­bæri­­legt við það sem er að gerast hjá Ríkis­út­­varpinu og hefur tíðkast lengi. Þar eru ýmsir dag­­skrár­­gerðar­­menn sem sam­hliða starfa sem tón­listar­­menn á kvöldin. Þarna eru auð­vitað samansúrruð hags­muna­­tengsl,“ skrifar Jakob.

„Ef á að vera hægt að verja þennan ríkis­­rekstur á sam­­keppnis­vett­vangi þá verður stofnunin að vera fag­­leg. En það er hún auð­vitað ekki og skákar í því skálka­skjólinu að Ís­­lendingar eru prinsipplaus þjóð. Auð­vitað er þetta ekkert stór­­mál í hugum flestra en ef við föllumst á að þetta sé í góðu lagi hvernig á þá að vera hægt með góðu móti að gagn­rýna spillingu þegar meiri sam­eigin­­legir hags­munir eru undir? Prinsipp eru ekki um­semjan­legt fyrir­­bæri, eða spurning um hvar á að setja línuna. (Ég geri ekki ráð fyrir að fá mörg læk á þennan status ef nokkurt — hún verður alltaf þykk þögnin þegar ég impra á þessu.),“ heldur Jakob á­fram.

Fjöl­margir sýna Jakobi stuðning í at­huga­semdum og hafa yfir hundrað manns líkað við færsluna þegar þetta er skrifað.

Ólafur Páll Gunnars­son, dag­skrár­gerðar­maður á RÚV, svarar hins vegar Jakobi í fullum hálsi í at­huga­semd og sakar gagn­rýn­endur Ríkis­út­varpsins um að hlusta ekki á út­varpið,.

„Ég hef bara þetta að segja sem opin­ber starfs­­maður Ríkis­út­­varpsins. Við sem þar störfum erum fyrst og fremst að vanda okkur við að gera gott út­­varp fyrir sem flesta. Það er örugg­­lega margt sem er hægt að gera betur en okkur tekst í dag en það er engin spilling - ekkert sam­­særi - enginn klíku­­skapur og ekkert slíkt. Við erum opin­berir starfs­­menn og högum okkur sam­­kvæmt því. Það vilja allir meiri spilun en þeir fá - það er stað­­reynd,“ skrifar Ólafur.

„Þið sem gagn­rýnið mest - hafið þið kynnt ykkur dag­­skrána á Rás 2? Hlustið þið virki­­lega á Rás 2? Vitið þið um alla póstana sem við erum með til að kynna ís­­lenska tón­list? Og hver raun­veru­­legur munur er á Rás 2 og öðrum stöðvum varðandi ís­­lenska tón­list td?
Við erum að gera mikið af góðum hlutum varðandi Ís­­lenska tón­list - alls­­konar tón­list, en fyrst og fremst þurfum við að sinna eig­endum út­­varpsins - hlust­endum,“ bætir hann við.

„Það getur ekki verið sjálf­­sagður réttur fólks sem fæst við það að búa til músík - að hún sé sjálf­krafa spiluð á Rás 2 - það virkar bara ekki þannig. Matur er mis-góður, og það er músík líka. Þetta er ekki allt jafn gott. Ég ber mikla virðingu fyrir tón­listar­­fólki yfir höfuð og elska tón­list. Ást og friður í massa­vís,“ skrifar Ólafur að lokum.