Jakob baunar á dýra ríkis­starfs­menn: „Við erum að sligast“

Jakob Bjarnar Gretars­son blaða­maður veltir því fyrir sér hvers vegna ekki sé hægt að losna við ríkis­starfs­menn úr starfi án þess að það þurfi að kosta al­menning „hand­legg í skaða­bætur.“ Til­efnið er mál Björns Þor­láks­sonar, fyrr­verandi upp­lýsinga­full­trúa Um­hverfis­stofnunar.

Eins og fram hefur komið var mál Björns tekið fyrir í héraðs­dómi Reykja­víkur í gær. Björn hefur höfðað bóta­mál á hendur ís­lenska ríkinu á grund­velli þess að staða hans hjá Um­hverfis­stofnun hafi verið lögð niður með ó­lög­mætum hætti. Hann fer fram á tveggja ára laun og miska­bætur, en krafan nemur sam­tals 23 milljónum króna.

Jakob furðar sig á málinu al­mennt. „Ja­hérna hér. Burt­séð frá Birni og þessu máli sem ég þekki ekki í smá­at­riðum, heldur al­mennt: Er það svo að ekki er nokkur einasta leið að losna við ríkis­starfs­menn af fóðrunum án þess að það kosti okkur al­menning hand­legg í skaða­bætur? Við erum að sligast,“ skrifar Jakob.

Ýmsir leggja orð í bel, meðal annars Sósíal­ista­foringinn Gunnar Smári. „Ís­lendingar eru nú orðnir 370 þúsund svo þessar 23 m.kr. eru ekki nema rétt rúmar 62 kr. á mann. Hand­leggurinn á þér er meira virði, hann er bæði at­vinnu­tæki þegar þú skrifar og leik­fangið þitt í golfi.“

Karl Th kemur ríkis­starfs­mönnum til varnar. „Ríkis­starfs­menn á fóðrunum? Áttu við lækna, hjúkrunar­fræðinga, löggur, kennara eða jafn­vel bara starfs­menn Skattsins? Hvers konar þrá­hyggja er þetta?“

Jakob svarar: „Nei, ég á ekki við það. Það liggur fyrir sam­fé­lags­leg sátt um að ríkið haldi úti sam­fé­lags­þjónustu sem snýr að löggum, hjúkkum og kennurum. Alltaf þegar ég bendi á þetta út­tútnaða bákn, sem við hin fáu launa­þrælar sem borgum svimandi skatta á Ís­landi eru með á herðunum, og læt ekki fylgja með þennan disk­leimer poppa upp ein­hverjir am­lóðar með þessa hár­togun: Áttu kannski við lækna, hjúkrunar­fræðinga og kennara?

Nei, þetta eins og annað er með normal fyrir­vörum, en ekki hvað? Það hefur hins vegar og til dæmis aldrei verið rætt sér­stak­lega að hér sé til að mynda haldið úti stóði upp­lýsinga­full­trúa á öllum hugsan­legum og ó­hugsan­legum póstum. Mér þykir ekki ó­lík­legt að hvergi á byggðu bóli séu jafn margir upp­lýsinga­full­trúar per haus á fóðrum hins opin­bera. Af hverju vilt þú verja það með því að tala um eitt­hvað allt annað, Kalli?“