Íþróttafræðingur hjólar í Hjörvar: „Á sama tíma eru svona vitleysingar að eitra huga komandi kynslóða fyrir nokkra þúsundkalla"

14. janúar 2021
09:52
Fréttir & pistlar

Nýjasti þátturinn í fótboltahlaðvarpi Hjörvars Hafliðasonar, Dr. Football, hefur vakið hörð viðbrögð vegna auglýsingainnslags sem að þykir ósmekklegt í meira lagi.

Í innslaginu er verið að auglýsa nikótínkodda og hefst það á því að Hjörvar segir: „Fékk þær sláandi fréttir að aðeins 40% grunnskólanema er að taka í vörina og við ætlum að bæta úr því fyrir árslok.“

Síðan spyr hann viðmælanda sinn út í hvaða tegund hann mæli með fyrir nýliða og hvaðan sé hægt að kaupa púðana á netinu.

Aron Gauti Laxdal, doktor í íþróttafræði, fer hörðum orðum um innslagið í færslu á Twitter. „Maður eyðir öllum deginum í að efla lýðheilsu barna og á sama tíma eru svona vitleysingar að eitra huga komandi kynslóða fyrir nokkra þúsundkalla. Standard takk,“ segir Aron.

Vekur færsla Arons mikil viðbrögð. „Hvernig er þetta ekki lögbrot?“ segir einn netverji og Aron bendir á að ekkert tóbak sé í púðunum og því nái engin lög yfir vöruna. „Löglegt en siðlaust. Sýnir hversu brýnt það er að löggjöfin haldi í við tækninýjungar og nýsköpun,“ segir íþróttafræðingurinn.

Nikótínpúðar hafa notið vaxandi vinsælda hér á landi og eru gjarnan notaðir í staðinn fyrir neftóbak. Nýlegar tölur sýna að um fimmtungur ungra karlmanna notar púðanna en Embætti landlæknis hefur varað við vörunni. Engin lög eða reglugerðir séu til og lítið sé vitað um afleiðingar púðanna. Nýtt lagafrumvarp sem nær yfir púðana er í bígerð.

Þá greindi Fréttablaðið nýlega frá því að Eitrunarmiðstöð Landspítala hafi borist „of mörg símtöl undanfarið“ vegna barna sem komist hafa í nikótínpúða.

Var fólk varað við því að geyma allar nikótínvörur þar sem börn hvorki ná til né sjá og þá helst í læstum hirslum. „Nikótín er MJÖG eitrað efni, sérstaklega litlum börnum, og lítið magn getur valdið mjög alvarlegri eitrun,“ kom fram í tilkynningu frá Eitrunarmiðstöðinni.