Íslenskur talgreinir opnaður á netinu

Vefgátt fyrir nýjan íslenskan talgreini verður opnuð á hádegi í dag. Þar getur fólk kynnt sér talgreiningu og séð hvernig hún snýr talmáli í ritmál. Þetta kom fram í Morgunvaktinni á RÚV í morgun.
 
„Það verður gaman að prófa þetta og sjá hvort tölvunni tekst að snúa talmálinu fullkomlega yfir á ritmál eða ekki. Svo auðvitað höldum við áfram að þróa þessa tækni og vinna,“ sagði Jón Guðnason, forstöðumaður Gervigreindarsetursins og dósent við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík í viðtalinu í morgun. Vefslóð á nýja talgreininn er tal.ru.is 
 

Almenningur getur aðstoðað við þróun talgreinis á íslensku með því að nota vefgáttina. „Hugmyndin er að notfæra okkur talið sem kemur inn til þess að betrumbæta líkönin okkar. Við beitum nýjustu tækni á þetta,“ sagði Jón.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ávarpar kynningarfund um nýju gáttina klukkan 12:00 í dag í stofu M101 í Háskólanum í Reykjavík. Að fundinum standa Háskólinn í Reykjavík, Almannarómur og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.