Íslendingar deila misheppnaðasta „lífs-hakkinu“: „Í dag er ég dauð“

Það hafa margir prófað að gera eitthvað sniðugt sem það sá á netinu, svokölluð life-hack, þar sem notast er við áður óþekkta en bráðsniðuga lausn við vandamálum.

Katrín nokkur spurði fólk út í þetta á Twitter og kom sjálf með viðurkenningu: „Ég setti einu sinni Lego í uppþvottavélina. Það bráðnaði allt.“

Fjörugar umræður fóru af stað í kjölfarið.

Útvarpskonan Halldóra Birta sagði á léttu nótunum:

„Að nota hníf til að ná brauðinu upp úr brauðristinni. Í dag er ég dauð.“

Ásta nokkur prófaði uppskrift:

„Ég eldaði einu sinni pylsur með spagettí rekið í gegn. Pylsur og pasta eru með gjörólíka eldunartíma.“

Það gerði Anna líka:

Setti brauðristina á hliðina og brauð með ostasneið inn í hana til þess að fá svona næs grillað brauð með osti og það kveiknaði í brauðristinni og ég þurfti að henda henni út í garð til að ná að slökkva eldinn

Valgerður nokkur segir ekki sniðugt að þurrka föt í örbylgjuofni:

„Það var ekki ég, en uppáhaldsbolur sonar mins var skítugur og pabbi hans þvoði hann í höndunum og setti í örbylgjuna til að þurrka fljótt. Bolurinn brann…“

Ástþór segir að hann hafi prófað að setja flatan bjór í Soda Stream tæki. Aðspurður hvort bjórinn hafi verið drykkjarhæfur segir hann:

„Það var ekki reynt, þar sem hann fór út um allt, í svipuðu formi og froða úr froðuvél... og því næst drakk skúringarmoppan hann í sig... Það lagði enginn í að lepja af gólfinu.“

Þá sagði annar:

„Veit um einn sem setti súkkulaðihúðaðar kaffibaunir í fínu kaffivélina sína og það endaði í tárum.“