Ingvi Hrafn: Myndi biðja um sömu sprautu og bróðir minn

„Hann taldi sig vera kominn á endastöð á því lífi sem hann gat hugsað sér, það lá fyrir honum og gerðist á skömmum tíma að hann ætti ekki heimangengt aftur og restin af lífinu yrði á einhvers konar stofnun þar sem hann þyrfti aðstoð starfsfólks við allar daglegar þarfir“, segir Ingvi Hrafn Jónsson, fyrrum fréttastjóri og talar þar um bróður sinn sem þáði dánarmeðferð í Kanada síðastliðið vor og lést 82ja ára gamall síðastliðið vor.

Ingvi Hrafn ræðir dánaraðstoð og sína persónulegu reynslu vegna ákvörðunar bróður síns í þættinum 21 hjá Lindu Blöndal á Hringbraut.

Í þættinum hefur undanfarið verið fjallað um dánaraðstoð frá ýmsum hliðun en ný skýrsla frá heilbrigðisráðherra um málefnið kom út fyrir skömmu að beiðni nokkrura Alþingismanna.

Jón Örn Jónsson, elsti bróðir Ingva Hrafns þáði dánaraðstoð í Kanada þar sem hann hafði búið og starfað sem hagfræðiprófessor í fimm áratugi. Þar í landi hefur dánaraðstoð verið leyfð með lögum frá árinu 2016.

Jón Örn óskaði eft­ir því að fá aðstoð starfs­fólks sjúkra­húss­ins sem hann var á til að binda enda á líf sitt og lést hann 82ja ára þann 21.maí síðastliðinn. Það var með samþykki eiginkonu hans og sonar sem virtu val Jóns Arnar.

Sækir um dánaraðstoð

„Þegar hann stendur frammi fyrir þessu, þá bara allt í einu kemur þetta upp og hann kallar lækni til sín og segir: Ég ætla að fá að sækja um dánaraðstoð“, segir Ingvi Hrafn en í Kanada hafði verið uppi mikil umræða í landinu um slíka aðstoð og Jón Örn fylgst vel með henni og rætt málin við eiginkonu sína.

„Læknirinn bara setur ferilinn í gang og þetta eru tvö viðtöl með hálfsmánaðar millibili, læknir, sálfræðingur og félagsráðgjafi eru þar en ekki fjölskylda, fjölskyldunni kemur þetta ekkert við, þetta er bara sjúklingurinn einn“, segir Ingvi Hrafn.

Hann segir að í Kanada, að eftir fyrstu sprautu sem á að deyða þig þá getur sjúklingurinn hætt við og þá sé gripið inni. „Þú stýrir algerlega dauðdaganum, alveg þar til þú ert dáinn“.

Ingvi Hrafn trúði því ekki fyrst að bróðir hans vildi þetta raunverulega.

„Þetta kom svo á mig þegar mágkona mín, Guðrún Mjöll sagði mér þetta og ég sagði: Úlú, ertu að djóka í mér?" En nei var svarið, hann var búinn að ákveða að deyja. „Og ég vissi ekkert um þessa löggjöf í Kanada eða neitt en það var farið í gegnum þetta allt með mér“.

Fékk martraðir

„Og þetta hafði bara þessi rosalegu áhrif á mig, mér fannst eins og ég stæði bara sjálfur frammi fyrir dauðanum og ég var með þessar svakalegu og ofsafengnu martaðir þar sem ég var við dauðans dyr“.

Ingvi Hrafn segist hafa engan veginn vitað hvað hann ætti að segja við bróður sinn vegna hins skipulagða andláts en Jón Örn beið eftir símatalinu frá bróður sínum frá Íslandi. „Ég vissi ekkert hvernig þetta samtal ætti að fara fram, ég er búinn að vera í því í hálfa öld að tala við fólk og hefði einhverjum fundist skrýtið að mér yrði orða vant í þessu, en ég bara treysti mér ekki til þess“.

Ingvi Hrafn hringdi í bróður sinn þrátt fyrir allt og skildi þá betur þessa ákvörðun. Ingvi segir bæði eiginkonu og son Jóns Arnar hafa samþykkt strax vilja Jóns.

Hann telur að stjórnmálamenn á Íslandi muni ekki setja þetta mál á dagskrá: „Það kemur ekkert frumvarp á Alþingi eftir hálft ár eða eitt ár, kannski eftir fimm ár“, segir Ingi Hrafn sem vill opna umræðuna hér á landi um dánarastoð.

„Orð eru til alls fyrst“, bætir hann við.

Um sjálfan sig í ljósi veikinda bróður síns segir Ingvi Hrafn:

„Ég er algjörlega sannfærður núna að ef ég lenti í einhverju svona og ég gæti ráðið því í hausnum á mér og sagt heyrðu plís má ég fá sprautu þá myndi ég biðja um það“.