Ingunn segir Jódísi fara með rangt mál: „Það er ekki liðið ofbeldi eða kynjabundið misrétti innan okkar veggja“

Dr. Ingunn Hansdóttir, yfirsálfræðingur SÁÁ, segir Jódísi Skúladóttur, þingmann VG, fara með rangt mál þegar hún ræðir um meðferðarstarfsemi SÁÁ. Ingunn kom samtökunum til varnar í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Ingunn segir það alrangt að konur séu saman í meðferð með körlum, líklegast sé SÁÁ sá hluti heilbrigðiskerfisins sem sé það kynjaskiptasta. Þá sé það rangt að ráðgjafar fari á „nokkurra vikna námskeið“, um sé að ræða margra ára nám með mikilli handleiðslu. Þá hafnar hún því alfarið að meðferðin sé ekki áfallamiðuð, sérstaklega sé gætt að slíku við áfengis- og vímuefnameðferð.

„Við erum í góðu samstarfi við Háskóla Íslands. Það er bara of langur listi sem er of langt og leiðinlegt kannski að telja upp. Allt okkar starf er þekkingarmiðað. Ég man ekki hvað hún sagði, líkja þessu við dýfingar, að rugla þessu saman eins og við værum einhver trúarsamtök,“ sagði Ingunn. Hún viðurkennir þó að margt hafi breyst frá því Jódís fór í meðferð.

„Það er ekki liðið ofbeldi eða kynjabundið misrétti innan okkar veggja.“ Því hafi Einar Hermannsson sagt af sér sem formaður þegar upp komst um vændiskaup hans. Hann hafi aldrei komið nálægt meðferðarstarfinu. Meðferðaraðilar sjái það á hverju degi hvað staða kvenna sé alvarleg. „Það þarf að hjálpa konum og það erum við að gera daglega.“

Þá er Ingunn ekki hrifin af hugmyndum Jódísar að ríkið taki yfir starfsemina, það sé þó pólitískt mál. „Við erum með meðferðarsamfellu, það kemur fólk að utan úr heimi að fylgjast með því sem við gerum,“ sagði Ingunn. „Við sinnum fjölskyldustiginu, við sinnum börnunum, hún talaði líka um hræðilega hugmyndafræði gagnvart börnum sem er svo rangt, við erum til fyrirmyndar.“ Það geti hæglega farið úr skorðum ef ríkið tekur yfir, það sé heldur ekki ávísun á meira fjármagn.

„Það blasir við okkur í fréttum á hverju einasta kvöldi hvað það vantar þar.“