Ingibjörg Sólrún: Styrmir „mikilvirkur leikstjórnandi í „ógeðslegu þjóðfélagi“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, sendir Styrmi Gunnarssyni, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, kaldar kveðjur á Facebook-síðu sinni í dag.

Þar birtir Ingibjörg Sólrún mynd af ferðatösku og ofan á henni liggur Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem Einar Kárason skrifaði.

„Komin til Kastrup á leið aftur til Bagdad. Las í þessari bók í flugvélinni og var kippt aftur til ársins 2003 og inn í þann lygavef sem Styrmir Gunnarsson átti frumkvæðið að því að spinna um mig og Baug. Styrmir var mikilvirkur leikstjórnandi í „ógeðslegu þjóðfélagi“ og samt finnst ýmsum sæmilega vitibornum mönnum við hæfi að vitna í hann og gefa honum dagskrárvald!,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg vísaði þarna meðal annars í fræg ummæli sem Styrmir lét falla í Rannsóknarskýrslu Alþingis vegna efnahagshrunsins 2008.

„Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta,“ sagði Styrmir.