Ingibjörg Sólrún: Íslendingar geta lært af Írökum - „Við megum ekki vera svo hrokafull“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að Íslendingar geti lært sitthvað af Írökum. Ingibjörg stýrir nú starfi fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Írak þar sem kosningamál eru meðal annars hluti verkefna.

Í frétt Fréttablaðsins í dag er sagt frá því að Írakar hafi bannað þingmönnum að skipta um flokk ef grunur leikur á að flutningurinn sé til þess eins að komast nær kjötkötlunum. Segir Ingibjörg að Íslendingar geti dregið lærdóm af þessu, en eins og kunnugt er skipti Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, yfir í Sjálfstæðisflokkinn skömmu eftir síðustu kosningar.

„Þeir settu í kosningalög að þingkjörnir þingmenn geta ekki skipt um flokk eða fylkingu, það er að segja kosningabandalag. Ef þeir hafa verið kjörnir á þing sem hluti af flokki eða bandalagi þá geta þeir ekki skipt um lið,“ segir Ingibjörg við Fréttablaðið.

Ingibjörg bendir á að ekki sé talið eðlilegt að einstaklingar hlaupi á milli flokka, enda séu það flokkar sem fólk kýs, ekki persónur.

„Það er mikil spilling í Írak og menn eru að reyna að takast á við hana, löggjöfin er liður í að stöðva það.“

Þegar hún var spurð að því hvort Íslendingar geti dregið lærdóm af Írökum í þessum efnum svarar hún því játandi.

„Við megum ekki vera svo hrokafull að halda að allt sé í lagi hjá okkur og að við getum ekkert af öðrum þjóðum lært,“ segir hún.