Ingibjörg með COVID-19: Einkennin sem komu á óvart og það sem ég hef lært

„Kæru vinir. Ég er með Covid - 19, greindist í gær. Þetta er 9. dagur í veikindum. Ég er mun betri í dag en í gær og ég er ákveðin í að síðasta brekkan sé búin.“

Þetta segir Ingibjörg Valgeirsdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri í pistli á vef Fréttablaðsins, hún opnar sig um hin ýmsu einkenni COVID-19 sem hafa komið henni á óvart. Þá hrósar hún íslensku heilbrigðiskerfi. Hún ákvað að opna sig um einkennin í þeirri von að frásögn hennar komi öðrum að gagni. Einkennin geta nefnilega verið ýmisskonar. Ingibjörg segir:

„Það sem er búið að koma mér á óvart:

Hvað Covid 19 er allskonar. Mig grunaði ekki að ég væri með Covid 19 fyrr en á 6. degi. Fannst ég ekki vera með Covid einkenni. Er aldrei búin að fá hita eða beinverki og afþakkaði tíma hjá heimilislækninum mínum því ég vildi létta á kerfinu.

Hvað Covid 19 hefur farið mikið í meltinguna. Var með hósta, hálsbólgu og væg flensueinkenni í fjóra daga (var sem betur fer í sóttkví frá fyrsta degi með Kríu því hún var í sóttkví vegna smits í skólanum), stálslegin á 5. degi og svo bakslag á 6. degi með þriggja daga síversnandi flensueinkennum, augnkvef, bragðskynið fór, ógleði, niðurgangur og versti dagurinn í gær með ógleði, uppköstum og þrýstingi á höfuð og birtufælni sem ég tengi við augnkvefið.

Hvað Covid er bráðsmitandi. Tveir metrarnir eru nokkuð auðveldir í framkvæmd. Svo er það allt hitt, ísskápurinn, kaffivélin, stólbökin, hurðarhúnarnir, bensíndælurnar, posarnir...Hún er klók þessi veira og vill meira og meira.“

Ingibjörg liggur heima með kórónaveiruna

Þá hrósar hún íslensku heilbrigðiskerfi sem hún segir að hafi tekið hana í fangið og ekkert hafi komið á óvart á þeim bænum:

„Hvað heilbrigðiskerfið mitt tók mig sterkt í fangið og hvað það skipti mig miklu máli Heimilislæknirinn minn er búinn að vera vakinn og sofinn yfir mér, í gær fékk ég 6 símtöl frá rakningarteyminu, heimilislækninum mínum og læknum á LSH, ég var kölluð inn á göngudeild í gærkvöldi þar sem ég fór í gegnum blóðprufur og mælingar og mér var gefinn vökvi í æð.

Í dag hafa svo bæði heimilislæknirinn minn og læknir frá LSH hringt í mig til að kanna stöðuna. Svo óendanlega þakklát. Við þurfum að halda vel utan um allt þetta góða fólk okkar. Ekki bara núna.

Hvað allt verður verra augnablikin sem óttinn tekur að daðra við hugann og spila á létta tilfinningastrengi. Þá er gott að vita að hverfulleikinn er náttúrulögmál og óttinn þarf að víkja fyrir öðrum tilfinningum sem vilja komast að. Augnablikin þau líða öll hjá. Núna er ég að hanga með minni innri ró. Við fílum það báðar.“

Ingibjörg kveðst hafa verið efins um að opna sig á þennan hátt um sjúkdóminn. Hún segir:

„Ég trúi á sögur sem hjálpa okkur að skilja. Ég held að þegar við þekkjum einhvern sem býr að tiltekinni reynslu þá finnst okkur sá veruleiki nær okkur. Og það getur haft áhrif á að við verðum meira með vakandi vitund. Því án gríns; þá er þetta ekkert grín. Förum með lagni í gegnum þennan skafl elsku vinir, við kunnum það svo vel.“