Hringbraut skrifar

Inga Sæland segir umræðu fólks um hana einkennast af menntahroka: „Dööö, hvað veit ég svo sem?“

2. mars 2020
10:01
Fréttir & pistlar

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir gagnrýni fólks á ummæli hennar um viðbrögð við kórónaveirunni vera dæmi um menntahroka. Hún var gestur Einars Þorsteinssonar, fréttamanns RÚV, í Kastljósinu í vikunni.

Viðtalið vakti mikla athygli og fannst mörgum Einar ganga hart að Ingu en hann spurði hana hvers vegna hún væri að grafa undan stofnunum eins og sóttvarnarlækni, almannavörnum, ríkislögreglustjóra með fullyrðingum sem hvorki byggðu á vísindum né djúpri þekkingu, enda hefði hún hana ekki. Aðrir hafa staðið með Einari eftir viðtalið og sagt að um eðlilegar spurningar hafi verið að ræða sem formaður stjórnmálaflokks eigi að geta svarað.

Inga segir þá umræðu þeirra sem hafa gagnrýnt hana á samfélagsmiðlum einkennast af menntahroka:

„Ég velti fyrir mér menntahrokanum sem ég er að sjá hér víða um netheima. Snillinga sem þykjast vera öðrum æðri og meiri, jafnvel fastur dagskrárliður RÚV í öllum kosningum sem er próffesor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir: "Dæmigerð vísinda-fyrirlitning lýðhyggjufólks" Sérfræðingar sem gera lítið úr skoðunum annara, kalla þá frekjudollur lýðskrumara og fávita. Ganga jafnvel það langt að gera lítið úr eldhúsborðinu heima   Kvennfyrirlitningin hjá sumum er með hreinum ólíkindum. Vonaði að fylleríið á Klausturbar nokkurra ónefndra aðila hefði verið víti til varnaðar en svo er ekki. Enda dööö, hvað veit ég svo sem," segir hún í pistlinum. Stjórnmálafræðiprófessorinn sem hún vitnar til er Ólafur Þ. Harðarson, sem kom Einari til varnar eftir viðtalið við Ingu.

„Sú veira sem nú hellist yfir heimsbyggðina er fordæmalaus. Einstaklega athyglivert ef einhver sé svo mikill einfeldningur að halda að ég viti meira um hana en sérfræðingar í veirufræðum sem standa á gati vegna henna. Til eru sjálfskipaðir sérfræðingar í eigin snilligáfu sem telja að ég sé bjáni þegar ég segi það hreint út að ég hafi ekki vit á þessari veiru umfram það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) kemur með reglulega. Sem nú hefur lýst yfir hættuástandi á efsta stigi. En að öðru.

Sem Alþingismaður velti ég þvi fyrir mér hvort "snillingarnir" sem allt þykjast vita ætlist til þess að ég sé ja t.d geðlæknir, taugasérfræðingur, skurðlæknir, lögfræðingur, dómari, múrari, pípari, smiður,kennari, rafmagnssérfræðingur, skipstjóri og bara með alla heimsins menntun til að vera bær til að leggja fram frumvörp og þingsályktanir í þeim hjartans málum sem við í Flokki fólksins gerum kinnroðalaust og það á mörgum sviðum án sérfræðimenntunar á tilteknu sviði. Rýr væru þingstörfin ef þannig væri málum háttað, ég segi ekki annað en það.

Auðvita fer hland fyrir brjóstið á elítugræðgispungum þegar einhver stígur fram sem vill berjast af öllu afli gegn fátækt og spillingu og tala sama tungumál og allir aðrir. Talar tungumál sem þeir munu aldrei skilja enda aldrei þurft að berjast fyrir tilveru sinni daglega eins og fólkið sem þeir halda vísvitandi í vanlíðan og fátækt. Að sjálfsögðu verja þeir hagsmuni sína með kjafti og klóm og svífast einskis. En við höggumst ekki. Ég formaður Flokks fólksins í ykkar umboði mun aldrei gefast upp. Þið hafið styrkt mig í baráttu okkar dag frá degi. Hvaða nöfnum sem ég mun verða nefnd þá brosið bara með mér og hafið ekki áhyggjur, við eigum eftir að uppskera eins og við sáum. Við eigum eftir að standa uppi sem sigurvegarar."