Inga Sæland sár og reið eftir ferð niður Laugaveg með fötluðum bróður sínum – Sjáðu myndbandið

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, birti myndband á Facebook-síðu sinni í gær þar sem hún hjólar í Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, og meirihlutann í borginni.

Í myndbandinu, sem tekið er í göngugötunni á Laugaveginum, útskýrir Inga að hún hafi fylgt bróður sínum á fund í þessari þekktu verslunargötu, eða eins og Inga segir:

„Þessari frábæru göngugötu sem er nú þess valdandi að fötluðu fólki er gert nánast ómögulegt að ferðast um götuna,“ segir Inga og bætir við að hún og fatlaður bróðir hennar hafi þurft að leggja bifreið sinni lengst í burtu og láta sig hafa það að ganga og ganga.

Í myndbandinu minnir Inga á að kosningar eru á næsta leiti.

„Við Reykvíkinga segi ég þetta: Það verður kosið í vor. Ef þið viljið halda áfram að láta búa til hjólastíga og göngugötur um alla borg, þannig að stór hluti borgarbúa getur ekki ferðast um borgina sína skammlaust, þá skulið þið halda áfram að kjósa þetta fólk sem er að stýra borginni í dag. Ef þið viljið breytingar þá skulið þið kjósa Flokk fólksins,“ sagði hún meðal annars.

„Því eitt er alveg víst: Við skulum vinda ofan af þessari öfugþróun sem við þurfum að horfa upp á og höfum þurft að búa við síðustu árin.“