Inga Sæland furðar sig á könnunum Gallup: „Ónákvæmar, ómarktækar, leiðandi og villandi“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, lýsir á Facebook-síðu sinni yfir furðu sinni á skoðanakönnunum Gallup þar sem virðist vera sem Flokkur fólksins virðist þurrkast út af þingi.

„Enn ein furðukönnunin frá Gallup. Flokkur fólksins sem hefur 6 kjördæmakjörna þingmenn, hefur lagt fram lang flestu þingmannamálin, berst eins og ljón gegn misskiptingu, óréttlæti og fáttækt. hefur náð ótrúlegum árangri fyrir tugþúsundir aldraðra og öryrkja,“ segir Inga í færslu sinni. „Samkvæmt þessari könnun þurrkast Flokkur fólksins út af þingi. Annað hvort er engin þörf fyrir röddina okkar eða það er kominn tími til að skoða nánar hvernig staðið er að þessum könnunum almennt.“

Inga segir Flokk fólksins alltaf hafa verið í andaslitrunum í könnunum og hafi til að mynda fengið afspyrnu lélegt fylgi fyrir síðustu alþingiskosningar.

„Ég stóð í kosningasjónvarpi með öðrum stjórnmálaleiðtogum og ítrekað spurð að því hvernig mér liði með það að við værum nú sennilega að detta af þingi. Sem sagt úr kjörkössunum spruttu 6 þingmenn og allir kjördæmakjörnir, svo mikið af nú að marka þau orð,“ bætir Inga við.

Inga segir þannig að skoðanakannanirnar séu ónákvæmar, ómarktækar, leiðandi og villandi kannanir sem þurfi að þurrka út af sakramentinu.

„Ég mun svo sannarlega beyta mér fyrir því svo mikið er öruggt,“ segir hún að lokum.