Inga Sæland fór hamförum hjá Heimi og Gulla: „Eru þið treggáfaðir? Hvað er að ykkur eiginlega?“

„Ég vil bara fá að vera frjáls hérna innanlands. Ég vil bara halda landamærunum öruggum þannig að við getum sinnt þeim,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun. Þáttastjórnendurnir Heimir Karlsson og Gulli Helga spurðu hana út í skoðanir hennar á hvernig takast á við faraldurinn en hún gefur lítið fyrir aðgerðir stjórnvalda. „Við getum nánast tekið peningana og brennt þá ef við ætlum að stóla á þessi hraðpróf,“ sagði hún meðal annars.

Svaraði hún Heimi og Gulla hvöss í hvert skipti. Sagði hún við þá í eitt skiptið: „Þið eruð eins og karlarnir niðri á þingi sem leggið mér orð í munn.“

Spurðu þeir hvernig halda eigi landamærunum öruggum. „Nú með því að hleypa ekki fleirum inn en við getum sinnt.“ Á það bæði við um ferðamenn og Íslendinga að snúa heim. „Við erum að koma frá Tenerife núna og við erum að mæla 170-200 og eitthvað, ég veit ekki hvað mörg smit á landamærunum, við erum að slá met í því.“

-„Ekki viltu loka landamærunum fyrir Íslendingum sem eru að koma heim úr fríi?,“ spurði Heimir.

Inga svaraði hvöss: „Hættiði þessu „loka landamærunum“-kjaftæði, ég er ekkert að tala um að loka landamærunum! Djöfulsins bull er þetta. Afsakið orðbragðið.“

Hvað ætlarðu þá að gera?

„Ég var að segja það! Eru þið treggáfaðir? Hvað er að ykkur eiginlega?,“ svaraði Inga og uppskar mikill hlátur. „Ég vil halda þessu eins og þetta var. Þetta var þannig á ágætis tíma að við höfðum ágæta stjórn og höfðum ekki áhyggjur af því að spítalinn okkar færi á hliðina. Við þurftum ekki að hafa áhyggjur af því að leggjast inn. Við þurftum ekki að loka Klíníkinni eða einu eða neinu til að kalla inn hjúkrunarfræðinga,“ sagði hún. Vill hún frekar halda öllu gangandi í stað þess að ferðamenn inn í landið.

Gulli svaraði að staðan væri þannig að minkurinn væri kominn inn í hænsnakofann og Inga væri að leggja til að loka hurðinni.

„Æji góði besti ég vil rjúfa þakið! Hættu þessu rugli. Til að allar hænurnar geti flogið út.“

Var hún spurð hvort henni væri alveg sama um fyrirtækin, ferðaþjónustuna og fólkið sem kemur inn í landið.

„Guð minn almáttugur. Þeir sem spyrja að þessu eru greinilega illa upplýstir um hvernig okkur gekk innanlands sumarið 2020 í blússandi Covid,“ sagði Inga og bætti við að fyrirtækjaeigendur úti á landi hafi sagt að það hefði gengið betur með Íslendinga innanlands en í blússandi ferðamannastraumi.

„Íslendingar eyða 300 milljörðum króna á erlendri grundu á hverju ári. Við eyddum hluta af þessum peningum innanlands. Við héldum okkar eigin kerfi gangandi. Ég ætla ekki að halda því fram að þó að við höfum verið svo heppin að fá blússandi ferðamannastraum eftir Eyjafjallajökul og eftir að Justin Bieber dansaði á einhverju flugvélaþaki, að fyrir árið 2010 þá höfum við verið einskis nýt og ekki getað séð um okkur sjálf. Við eigum að fá að njóta vafans. Ég vil fá að faðma móður mína og föður. Ég vil fá að láta eins og villingur í mínu eigin landi!“

Þannig að þú vilt sjá þetta þannig að það séu bara allir testaðir….

„Auðvitað!

Þannig að enginn má fara úr Leifsstöð fyrr en hann er testaður?

„Það sagði ég ekki. Hvað drekkið þið eiginlega í morgunkaffi? Ég sagði að það eigi að vera sóttvarnarhús þar sem einstaklingurinn millilendir og þarf að bíða eftir að fá svar við sínu prófi“.

Hér má hlusta á samtalið við Ingu í heild sinni.