Inga Björk í sárum: „Mér er svo kalt og skórnir blautir í gegn“ – Dóra Björt: „Með öllu óásættanlegt“

„Beið úti í 20 mínútur í biluðum kulda eftir Strætó. Vagninn sem kemur án aðgengis. Miðað við að þið segið að þetta séu örfáir vagnar án ramps þá er ég alveg einstaklega óheppin því þetta gerist í ca. annað hvert skipti sem ég tek strætó. Hálftími í næsta vagn.“

Þetta sagði Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, listfræðingur og starfsmaður Þroskahjálpar, á Twitter-síðu sinni í gærkvöldi. Óhætt er að segja að færsla hennar hafi vakið mikla athygli og hafa að minnsta kosti einn borgarfulltrúi og einn þingmaður sagt skoðun sína á málinu. Inga Björk hefur verið í hjólastól síðan hún fæddist og hefur mjög látið sig réttindi fatlaðs fólks varða.

Inga segir á Twitter að hún hafi hringt eftir leigubíl en enginn leigubíll með aðgangi verið á vakt. „Jafnréttisparadísin Ísland,“ sagði hún og bætti svo við:

„Aðstoðarkonan mín er að taka leigubíl heim til mín að sækja bílinn minn sem er semi óökufær og á leið á verkstæði. Bíð úti á meðan, alein, að deyja úr kulda. Í alvöru. Þetta á ekki að vera svona.“

Í annarri Twitter-færslu sagði hún: „Er ásættanlegt að fatlað fólk bíði í klukkutíma úti eftir að komast heim til sín? Strætó finnst það. Eftir þessa endurteknu uppákomu er krafan að vagnarnir fari úr umferð. Þetta er ekki í lagi.“

Inga hefur áður tjáð sig um að strætisvagnar á höfuðborgarsvæðinu séu ekki allir aðgengilegir fyrir fatlað fólk. Það gerði hún til dæmis í viðtali við Fréttablaðið árið 2019.

Í síðustu færslu sinni sagði hún: „Mér er svo kalt og skórnir blautir í gegn.“

Eins og að framan greinir hafa margir tjáð sig undir færslu Ingu Bjarkar, þar á meðal er Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata. „Þetta er með öllu óásættanlegt. Ég er búin að hafa samband við fulltrúa Reykjavíkur í stjórn Strætó. Hann ætlar að biðja framkvæmdastjóra um minnisblað um málið. Ég er að skoða að leggja jafnvel fram fyrirspurn í Borgarráði,“ segir Dóra.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, leggur einnig orð í belg og segir: „Þetta er fullkomlega óboðlegt!“