Illugi: Svandísi varpað öfugri úr heilbrigðisráðuneytinu – Skrýtnar kveðjur frá Katrínu

Illugi Jökulsson, rithöfundur, fjölmiðlamaður og þjóðfélagsrýnir, segir að Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, fái skrýtnar kveðjur frá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Nýr stjórnarsáttmáli var kynntur í gær og sömuleiðis ný ríkisstjórn en Svandís færist yfir í nýtt ráðuneyti matvæla-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmála eftir að hafa stýrt heilbrigðisráðuneytinu á miklum ólgutímum. Illuga þykir þetta hálf skrýtið allt saman eins og hann lýsir á Facebook-síðu sinni.

„Ansi fær Svandís Svavarsdóttir skrýtnar kveðjur frá stallsystur sinni Katrínu Jakobsdóttur. Svandís hefur brennandi áhuga á heilbrigðismálum og það hefur verið helsta réttlæting VG fyrir stjórnarsetu með Sjálfstæðisflokknum að Svandís stæði þó vaktina í heilbrigðismálunum. Nú er Svandísi varpað öfugri úr heilbrigðisráðuneytinu, en Katrín leggst svo lágt að segja að hún hafi sjálf gert tillögu um vistaskipti Svandísar, af því allir hafi svo gott af því að skipta um vettvang eftir fjögur ár (nema náttúrlega hún og Bjarni). Hvurslags fyrirbrigði er þetta VG eiginlega?“

Fjölmargir leggja orð í belg við færslu Illuga og veltir fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason því fyrir sér hvort Svandís hafi viljað sitja áfram í heilbrigðisráðuneytinu. Þannig hafi hún virkað þreytt á hann. Illugi segir að sé spurning en þó sé ljóst að ráðuneytið hafi ekki staðið VG til boða. Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknar, er nýr heilbrigðisráðherra.