Illugi: „Sagði Katrín þetta í raun og veru?“

Illugi Jökulsson, rithöfundur og samfélagsrýnir, á bágt með að trúa því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi staðið í pontu á Alþingi í gær.

Illugi deilir frétt Kjarnans frá því í gær þar sem fjallað er um óundirbúinn fyrirspurnatíma á Alþingi. Þar spurði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, Katrínu að því hvort hún hefði kallað eftir dæmum frá seðlabankastjóra um það hvernig landinu væri stjórnað af hagsmunaöflum.

Eins og margir muna steig Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fram í viðtali við Stundina á dögunum þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að landinu væri stjórnað af hagsmunaöflum og það væri ekkert grín að lenda upp á kant við þau. Vísaði hann meðal annars í Samherja máli sínu til stuðnings.

Katrín sagði í svari sínu til Loga í gær að hún hefði þá trú á stjórnmálunum og stjórnmálamönnum að þeir láti ekki stjórnast af hagsmunum. „Það væri auðvitað verulega illa fyrir okkur komið ef svo væri,“ sagði hún. Sagðist Katrín hafa þá trú að flokkarnir á Alþingi væru vandari að virðingu sinni en svo að þeir láti eingöngu stjórnast af hagsmunaöflum.

Illugi átti erfitt með að trúa þessum ummælum Katrínar: „Sagði Katrín þetta i raun og veru? Eða er þetta standup grínleikari sem þykist vera hún?“

Ummæli Katrínar vöktu athygli hjá fleirum en Illuga. Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands, sagði að samkvæmt Katrínu væri allt í góðu standi á Íslandi.

„Helst má skilja á henni að tal um spillingu og ógnarvöld auðvaldsins sé byggt á miklum misskilningi og vanþekkingu. Ég hef náttúrlega aldrei verið í VG, og spyr því flokksfólk þar: Er ekki galið af formanni þessa flokks, sem rekur ættir sínar til Alþýðubandalagsins og Sósíalistaflokksins gamla, að tala svona? Katrín hljómar frekar eins og talskona Sjálfstæðisflokks en flokks sem kennir sig við vinstristefnu.“