Illugi heyrði hrollvekjandi sögu í heita pottinum: „Djöfullinn er þarna undir“

Illugi Jökulsson, rithöfundur, sagnfræðingur og fjölmiðlamaður, hitti Vestmannaeying í heita pottinum í dag. Gera má ráð fyrir að Illugi hafi verið í Vesturbæjarlauginni og segir hann gjarnan sögur úr heita pottinum á Facebook-síðu sinni.

Sagan sem Illugi sagði fylgjendum sínum í morgun er í senn merkileg og óhugnanleg, en eins og kunnugt er voru í gær liðin 50 ár frá því að eldgos hófst í Eyjum. Gosið hafði mikil áhrif á líf bæjarbúa sem allir voru fluttir upp á land í öruggt skjól. Margir sneru til baka en aðrir fluttu frá Eyjum fyrir fullt og allt.

Sagan sem Vestmannaeyingurinn sagði Illuga í pottinum er svona og birtist óbreytt í frásögn Illuga hér að neðan:

„Haustið 1972 bjó nafngreindur karl með fjölskyldu sinni mjög austarlega í byggðinni í Heimaey. Þótti hann forn í skapi sem þá var kallað. Eitt sinn tekur fólk eftir því að hann fer að hverfa að heiman síðla kvölds og kemur ekki heim fyrr en komið er fram á nótt, nokkuð fáskiptinn þá.

Virðist hann leggja leið sína á afar fáfarnar slóðir austur af bænum þar sem niðamyrkur er á nóttum.

Með tilliti til þess að þar var stutt að bröttum sjávarhömrum fóru aðstandendur karls að óttast að hann væri að manna sig upp í að gera sér mein, og fylgdu honum því eftir þegar hann hvarf næst út í náttmyrkrið.

Mikil var undrun þeirra þegar þeir komu að karli að paufast við að hlaða allstóra vörðu á víðavangi. Kom og í ljós að hann hafði hlaðið nokkrar slíkar vörður með reglulegu millibili í 70-80 metra beina línu.

"Hvað í ósköpunum ertu að gera?" spurðu menn karl.

Hann vildi lengi vel engu svara en gjóaði loks augum á línuna sem hann hafði varðað.

"Djöfullinn," sagði hann lágum en ákveðnum rómi, "djöfullinn er þarna undir."

Tveim þrem mánuðum seinna kom eldurinn upp á línunni karlsins.“