Hringbraut skrifar

Illugi: „gleymum aldrei þessum hryllingi“

22. janúar 2020
12:09
Fréttir & pistlar

„Það eru 75 ár í dag síðan fangabúðirnar Auschwitz-Birkenau voru frelsaðar. Þrátt fyrir óteljandi illvirki sem mennirnir hafa tekið upp á til að murka lífið hver úr öðrum, þá jafnast eiginlega ekkert á við þá vélrænu, þrælskipulögðu og stofnanavæddu illsku sem Auschwitz er tákn um.“

Þetta segir Illugi Jökulsson rithöfundur á Facebook. í útrýmingarbúðunum í Auschwitz í Póllandi. Auschwitz voru í rauninni klasi fangabúða; þrjár aðalbúðir og 40 minni. Auschwitz II búðirnar í Birkenau, sem reistar voru 1941, voru alræmdastar. Þar voru yfir 300 kofar sem fangarnir bjuggu í, fjögur „baðhús“ eins og gasklefarnir voru kallaðir, líkkjallarar og líkbrennsluofnar.

Þúsundir fanga gengust undir „læknisfræðitilraunir“ undir stjórn Jósefs Mengele, engils dauðans. Rauði herinn hafði sótt sífellt lengra inn í Pólland frá því um miðjan janúar og eftir að hafa náð Varsjá og Kraká á sitt vald var stefnan tekin á Auschwitz.

Þegar nasistar fengu veður af því fór morðaldan í búðunum á hærra stig. Fangar á sjúkrabeði voru skotnir og reynt var að brenna öll sönnunargögn. Þegar Sovétmenn náðu loksins til búðanna biðu þeirra um 650 lík og sjö þúsund illa leiknir fangar, nær dauða en lífi.

Þá fundust sex vörugeymslur sem innihéldu hundruð þúsunda af kjólum, jakkafötum og skópörum fórnarlambanna sem nasistunum gafst ekki tími til að brenna.

Um þetta allt segir Illugi:

„Gleymum aldrei þessum hryllingi, en gleymum því heldur ekki að þrátt fyrir allt þá mistókst helförin. Þótt alltof seint væri, þá voru útrýmingarbúðirnar þó frelsaðar að lokum.“