Illuga nóg boðið í heita pottinum: „Allir þrír trúðu þessu greinilega í einlægni“

Fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson var staddur í heita pottinum í ónefndri sundlaug á dögunum þegar hann heyrði spjall þriggja manna um stöðu mála hér á landi í kórónuveirufaraldrinum.

Illugi segir frá þessu í pistli í nýjasta tölublaði Stundarinnar og segir hann að tveir mannanna hafi sennilega verið komnir undir fertugt en sá þriðji ögn eldri.

„Þeir fóru að tala um Covid og eldri maðurinn sagðist hafa fengið Covid í fyrra. Hann hefði orðið býsna lasinn en unnið bug á sjúkdómnum með því að taka nógu mikið af Panodil Rapid og svo hefði hann sofið þetta meira og minna úr sér og jafnað sig á nokkrum dögum. Og þessi reynsla hefði sannfært hann um að heilbrigðisyfirvöld með allar sínar ráðstafanir væru á algjörum villigötum,“ segir Illugi.

Hann segir að sá eldri hafi sagt að best væri að loka sóttvarnalækni, landlækni og heilbrigðisráðherra inni og henda lyklinum. Covid væri jú bara flensa. Illugi segir að yngri mennirnir tveir hafi samsinnt þessu. „Ég heyrði að þeir voru allir þrír sammála um að heilbrigðisyfirvöld vissu annaðhvort ekkert í hausinn á sér, eða tækju vísvitandi þátt í samsæri heilbrigðisyfirvalda, stóru lyfjafyrirtækjanna og fjölmiðlanna um að bæla niður sannleikann um Covid.“

Samræðurnar héldu áfram á sömu nótum og tekur fram að þær hafi verið vinsamlegar, líka eftir að hann fór að blanda sér inn í þær.

„En ég skal að vísu viðurkenna að mér var nóg boðið þegar þremenningarnir fóru að fullyrða að „fjöldi manns“ hefði dáið eftir bólusetningu. Þá fannst mér þetta hætt að vera skemmtilegt, því þetta er bara þvaður og vitleysa, en allir þrír trúðu þessu greinilega í einlægni.“

Illugi segist hafa beðið mennina að nefna dæmi en þá hafi þeim vafist tunga um tönn.

„Loks mundu þeir eftir því að hafa lesið á mbl.is að kona um sjötugt hefði dáið skömmu eftir bólusetningu. „Því var alls ekki slegið föstu að sú kona hefði dáið af völdum bólusetningarinnar,“ sagði ég. „Nei, og það sannar einmitt mitt mál,“ sagði einn þremenninganna. „Auðvitað var það bælt niður.“

Pistil Illuga má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Stundarinnar.