Íbúar í miðborginni hyggjast kæra veggjakrotara

Maður á þrítugsaldri gekk á milli húsa á Bergþórugötunni í miðbæ Reykjavíkur um helgina og krotaði og „taggaði" á hús. Íbúar á Bergþórugötu eru allt annað en sáttir við athæfi mannsins og vöktu athygli á málinu á Facebook-síðunni Íbúar í miðborg.

„Sums staðar er taggið hans eitt og á sums staðar bættist það við flóruna frá samskonar þenkjandi fólki þ.e. að það sé í lagi að skemma eigur annarra með því að skrifa eða spreyja á hús án leyfis."

Íbúar höfðu samband við lögregluna vegna málsins.

„Lögreglan var snögg að bregðast við og þekkir nú viðkomandi sem á „taggið" en tagg er sama og undirskrift. Samkvæmt lögreglu höfum við 14 daga til að kæra viðkomandi. Kíkið á húsin ykkar og sendið lögreglu veggjakrotið því það safnast saman í innistæðu þegar þeir ná þeim."

Þá kemur fram að sökudólgurinn vildi ekki leyfa lögreglunni að kíkja í tösku sem hann var með undir dótið sitt.


„Það kostar alveg hellings pening og vinnu að mála hús og kemur illa við þá sem ekki eiga pening og geta ekki málað sjálfir. Leyfum veggjakroturum ekki að komast upp með þetta lengur óáreitt. Tilkynnið veggjakrotið og eflum nágrannavörslu."