Í stofufangelsi á Tenerife: „Þetta eru skrýtnir tímar“

Anna Kristjáns­dóttir skrifar frá Tenerife:

Dagur 213 - Stofu­fangelsi?

Þetta eru skrýtnir tímar. Spænska ríkis­stjórnin hefur lýst yfir hálf­gerðri ein­angrun þjóðarinnar næstu vikurnar og þar á meðal einnig mér. Upp­haf­lega átti bannið að ríkja frá mið­nætti á sunnu­dags­kvöld, en í gær­kvöldi var á­kveðið að flýta ein­angruninni og tók hún gildi síðast­liðið mið­nætti. Ég segi hálf­gerðri ein­angrun því hér ríkir sam­komu­bann. Bar-Inn er lokaður, væntan­lega einnig Nostalgía og Bam­bú sem og aðrir veitinga og skemmti­staðir. Allar aðrar verslanir en mat­vöru­verslanir og lyfja­búðir eru lokaðar.


Ég má ýmis­legt. Ég má fara í mat­vöru­verslun eða lyfja­búð, fara til læknis og að­stoða aldraða ættingja. Ég má mæta til vinnu, en hvað á ég að gera til vinnu? Ég nenni ekkert að vinna. Ég held að ég megi vera við­stödd við eigin jarðar­för, en ekki annarra. Ég held að ég megi fara úr landi, en veit ekki hvort ég megi koma heim aftur. Ég er í reynd í hálf­gerðu stofu­fangelsi.


Ég hafði hugsað mér að skreppa á Klaka­skerið í fá­eina daga í næstu viku. Tvö barna­börn eiga af­mæli á þeim tíma og ég sakna fjöl­skyldunnar. Með tveggja vikna sótt­kví við komu til Ís­lands er sá mögu­leiki ó­nýtur og ég fer hvergi. Vantar ekki ein­hverjum flug­miða til Ís­lands á vægu verði, báðar leiðir?


Sumt breytist ekki. Ég veitti því at­hygli að nokkrir harð­svíraðir sól­dýrk­endur gengu hér fram­hjá húsinu á leið sinni til strandar í morgun, Ég sé nú að sama fólk gengur til baka eins og það hafi verið rekið í burtu. Ég neyðist því til að leggjast á sund­laugar­bakkann í dag. Þá virðast ferjurnar halda á­ætlun sinni í dag, að minnsta kosti Baldur og Sæ­var, en ég efa að Herjólfur V fái að sigla vegna sam­komu­bannsins. Akra­borgin er enn sem fyrr í sótt­kví, af­sakið þurr­kví.

Annars nokkuð góð.