Hvernig vinstristjórn verður kjósendum boðið upp á ?

Flest bendir til þess að Íslendingar sitji uppi með enn eina vinstristjórnina að loknum kosningum síðar á árinu ef marka má nýjustu skoðanakönnunina sem Stöð 2 birti í gær. Maskína gerði könnunina dagana 12. til 20. janúar. Vert er að hafa í huga að könnunin er gerð áður en átökin í Samfylkingunni, sem meðal annars snúast um pólitíska aftöku á Ágústi Ólafi Ágústssyni, komu upp á yfirborðið. Það gerðist í seinni hluta síðustu viku eftir að könnun Maskínu var lokið.

Í meginatriðum er þessi könnun keimlík þeim könnunum sem hafa verið að birtast í vetur. Helst verða breytingar eftir því hvort Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn komast yfir 5 prósent mörkin í fylgi eða ekki. Nú eru báðir flokkarnir með 5,3 prósent og næðu með því þremur mönnum inn á þing hvor um sig. Í Gallupkönnun í byrjun þessa mánaðar voru þeir báðir undir þessum mörkum. Þannig vill þetta sveiflast og hefur vissulega sitt að segja.

Samkvæmt könnun Maskínu fyrir Stöð 2 fengi Sjálfstæðisflokkurinn 21,3 prósent fylgi og fjórtán menn kjörna en tapaði tveimur frá síðustu kosningum. Vinstri græn næðu 13,2 prósent fylgi, átta þingmönnum sem er þremur minna en í síðustu Alþingiskosningum. Framsókn fengi nú 9,5 prósent fylgi, sex þingmenn og tapaði tveimur. Þannig tapa stjórnarflokkanir samtals sjö þingmönnum frá kosningum, komnir niður í 28 þingmenn og ríkisstjórnin því kolfallin eins og verið hefur vel á annað ár. Miðað við könnun Maskínu gæti stjórnin skrimt áfram með því að taka Miðflokkinn inn með fjóra þingmenn, þannig alls 32 þingmenn sem er lágmark. Ólíklegt er að nokkur vilji leggja út í fjögurra flokka stjórn með lágmarksstuðning í þinginu og alla þá „villiketti“ sem þyrfti að treysta á. Það er vitanlega alveg galin hugmynd.

Miklu líklegra er að miðað við þessa niðurstöðu yrði mynduð þriggja flokka stjórn Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna. Þá yrði Framsókn skákað út úr núverandi vinstristjórn fyrir Samfylkinguna sem fengi fimm þingmönnum fleira en Framsókn en þingmannafjöldi á bak við þessa þrjá flokka yrði þá 33 sem liti bærilega út. Þá kynnu einhverjir að spyrja: Hefur Samfylkingin ekki ítrekað lýst því yfir að hún vilji alls ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum? Jú, vissulega. En þá kemur svarið: „Við sögðum það fyrir kosningar en nú stöndum við frammi fyrir þeim veruleika að þjóðin þarf að fá öfluga ríkisstjórn og við getum ekki skorast undan ábyrgð.“ Og svo mun Samfylkingin stökkva sigri hrósandi upp í rúmið hjá Sjálfstæðisflokki með Vinstri græna til fóta.

Mesti vandinn við myndun svona ríkisstjórnar yrði trúlega að ná samkomulagi um forsætisráðherra. Ekki er boðlegt að Katrín sæti áfram með einhverja sex eða sjö þingmenn Vinstri grænna á bak við sig. Hún mætti bara þakka fyrir að fá að vera með í ríkisstjórn og ráða tveimur eða þremur litlum ráðuneytum. Samfylkingin yrði í oddastöðu og mun geta krafist þess að fá annað hvort forsætisráðuneytið eða fjármálaráðuneytið fyrir Loga Einarsson. Það er svo annað mál hvort hann hefði eitthvað í svo mikilvæg ráðuneyti að gera. Ætla má að Bjarna Benediktssyni, formanni stærsta flokksins samkvæmt könnun Maskínu, yrði falið að leiða þessa stjórn sem yrði þá ekki eins mikil vinstristjórn og núverandi stjórn er - heldur meira eins og þjóðstjórn sem kæmi fáu í verk.

Svo er auðvitað möguleiki á hreinni fjögurra eða fimm flokka vinstri stjórn með Samfylkingu, Vinstri grænum og Pírötum sem samtals hefðu 26 þingmenn. Þá vantaði upp á sex þingmenn að lágmarki. Unnt væri að ná þeim fjölda um borð með stuðningi Framsóknar eða bæði Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Gunnars Smára.

Ástæðulaust er að útiloka þennan möguleika þó hann virðist vera út í hött.

En þá væri full ástæða til að grípa til orða séra Sigvalda þegar hann var látinn segja í skáldsögunni að nú væri orðið óhætt að biðja Guð að hjálpa sér!