Björn Þorfinnsson skrifar

Hvernig vil ég alls ekki deyja? Hvað skiptir mestu máli?

5. apríl 2020
12:00
Fréttir & pistlar

„Allt of fáir fá tæki­færi til að svara þeirri spurningu tíman­lega og við yfir­vegaðar að­stæður, hvort þeir vilji að lífi þeirra sé við­haldið ef við­komandi á ekki aftur­kvæmt til sömu eða betri heilsu en hann lifir við í dag,” segir Guð­ríður í samtali við Fréttablaðið í grein sem hefur vakið mikla athygli. Hringbraut hvetur lesendur til að kynna sér greinina í heild sinni á vef Fréttablaðsins.

Guð­ríður Kristín Þórðar­dóttir, sér­fræðingur í hjúkrun hjarta­sjúk­linga á Land­spítalanum ráð­leggur öldruðum sjúk­lingum með lang­vinna sjúk­dóma og að­stand­endum að ræða saman um óskir og vilja sjúk­linganna ef ske kynni að á­stand þeirra yrði lífs­hættu­legt. Það sé mikil­vægt á öllum tímum.

Í við­tali við Frétta­blaðið segir Guð­ríður Kristín að ef sjúk­lingur smitast af in­flúensu eða CO­VID-19 getur heilsu hans hrakað mjög hratt. Á há­tækni­sjúkra­húsi er hægt að ganga mjög langt til þess að halda sjúk­lingum á lífi en í mörgum til­vikum liggja ekki fyrir upp­lýsingar um hvort það sé vilji ein­stak­lingsins. Að sögn Guð­ríðar sýna rann­sóknir að oft fá aldraðir sjúk­lingar með­ferð sem þeir kæra sig ekkert endi­lega um að fá. Úr því sé mikil­vægt að bæta og það sé að­eins hægt með opin­skáu sam­tali.

Að sögn Guð­ríðar myndi það auð­velda slíkar að­stæður gríðar­lega fyrir alla aðila ef fyrir lægi hver vilji sjúk­lingsins væri. Guð­ríður hvetur alla til að í­grunda og ræða hvað skipti mestu máli í dag­legu lífi og hvort ein­hverjar óskir séu varðandi lífs­lok. Á­kjósan­legast væri að óskirnar væru skráðar í sjúkra­skrá, til að tryggja sem best að þeim verði fram­fylgt.

„Þeim upp­lýsingum er svo alltaf hægt að breyta ef á­herslur breytast,“ segir Guð­ríður.

Hér fyrir neðan má finna gagn­legar hug­leiðingar.

  1. Hvað skiptir mig mestu máli í mínu lífi?
  2. Hvaða færni/getu get ég ekki hugsað mér að lifa án?
  3. Við hvaða að­stæður myndir þú ekki vilja lifa?
  4. Hvernig myndi ég vilja deyja?
  5. Hvar og hverja myndi ég vilja hafa hjá mér?
  6. Hvaða læknis­fræði­lega inn­grip myndi ég ekki kæra mig um ef mér stæði það til boða?
  7. Hvernig vil ég alls ekki deyja?
  8. Hver væri best/ur til þess fallinn að tala mínu máli ef ég gæti það ekki sjálf/ur?
  9. Ef þú yrðir bráð­kvaddur/-kvödd, myndir þú vilja að reynt yrði að lífga þig við?

Greinina má finna í heild sinni hér.