Hverfa þrjátíu þingmenn af Alþingi í haust?

Eftir prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík er ljóst að minnst tveir núverandi þingmenn flokksins í höfuðborginni láta af þingmennsku í haust. Þátttakendur í prófkjörinu höfnuðu Sigríði Á. Andersen og Brynjar Níelsson náði ekki yfirlýstu markmiði sínu og afþakkaði 3. sætið sem líkast til verður baráttusæti flokksins í Reykjavík norður í Alþingiskosningunum í september.

Nú þegar stefnir í mikla endurnýjun hjá nær öllum flokkum á Alþingi að loknum þingkosningum í haust. Áhugavert er að skoða stöðuna hjá einstökum flokkum.

SJÁLFSTÆÐISFLOKKUR

Hjá Sjálfstæðisflokknum liggur fyrir að auk þeirra Brynjars og Sigríðar verða núverandi oddvitar flokksins í Norðaustur- og Suðurkjördæmum, Kristján Þór Júlíusson og Páll Magnússon hvorugur í framboði. Í Reykjavík er Birgir Ármannsson í baráttusæti og gæti því fallið af þingi þó að sagan segi okkur að landsmenn vakni jafnan við það daginn eftir kjördag að Birgir hafi náð kosningu á endasprettinum. Ásmundur Friðriksson er í baráttusætinu í Suðurkjördæmi.

Um næstu helgi verður prófkjör flokksins í Kraganum. Þar á flokkurinn nú fjóra þingmenn. Bryndís Haraldsdóttir sem endaði í 6. sæti í prófkjörinu síðast var flutt upp í 2. sæti listans til að jafna kynjahalla. Hart er barist um sætin og sterkir nýir frambjóðendur komnir til leiks. Því er óvíst að allir núverandi þingmenn flokksins í Kraganum verði á Alþingi eftir kosningar.

SAMFYLKINGIN

Ágúst Ólafur Ágústsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir ogGuðjón S. Brjánsson eru ekki í framboði og hverfa því örugglega af þingi.

Guðmundur Andri Thorsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir eru í baráttusætum og geta hæglega fallið út af Alþingi.

VINSTRI GRÆN

Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ólafur Þór Gunnarsson og Steingrímur J. Sigfússon eru ekki í framboði.

Lilja Rafney Magnúsdóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir eru í baráttusætum og gætu fallið úr af Alþingi.

FRAMSÓKNARFLOKKUR

Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórunn Egilsdóttir eru ekki í framboði og hætta á þingi.

Ásmundur Einar Daðason og Lilja Alfreðsdóttir eru bæði í framboði í Reykjavík þar sem flokkurinn hefur nú eitt þingsæti. Miðað við það fylgi sem Framsókn hefur mælst með að undanförnu verður að líta svo á að bæði oddvitasætin í Reykjavík séu baráttusæti og því gætu tveir þingmenn og ráðherrar fallið af þingi í haust

VIÐREISN

Jón Steindór Valdimarsson er í baráttusæti og gæti fallið út af Alþingi.

PÍRATAR

Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, og Smári McCarthy láta af þingmennsku í haust og bjóða sig ekki fram

MIÐFLOKKURINN

Framboðslistar Miðflokksins hafa ekki verið birtir en fyrir liggur að Gunnar Bragi Sveinsson lætur af þingmennsku.

Aðrir þingmenn flokksins eru taldir hyggja á áframhaldandi þingsetu. Skoðanakannanir gefa hins vegar til kynna nokkrar líkur séu á að þingmönnum flokksins fækki. Gera má ráð fyrir að Þorsteinn Sæmundsson og Ólafur Ísleifsson verði oddvitar og þar með í baráttusætum í Reykjavíkurkjördæmunum.

FLOKKUR FÓLKSINS

Framboðslistar Flokks fólksins hafa ekki verið birtir en flestar skoðanakannanir að undanförnu hafa gefið til kynna að flokkurinn muni ekki ná nægu fylgi til að koma að þingmanni og því óhætt að fullyrða að Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristjánsson séu í baráttusætum.

Samkvæmt þessu liggur nú þegar fyrir að sautján núverandi þingmenn verða ekki í hætta á þingi.

Þá liggur einnig fyrir að 13 sitjandi þingmenn virðast vera íbaráttusætum og gætu því fallið út af Alþingi.

Þannig gætu á bilinu tuttugu til þrjátíu þingmenn horfið af Alþingi í haust. Það verður að teljast býsna mikil endurnýjun.

- Ólafur Arnarson