„Hvar á ég að stinga?“ spurði innbrotsþjófur vopnaður skrúfjárni í Kópavogi

Um sex-leytið í morgun átti sér stað innbrot og líkamsárás í gamla miðbæ Kópavogs. Einstaklingur gerði tilraun til að brjótast inn í íbúð, og braust í kjölfarið inn í geymslu í húsinu.

DV greinir frá þessu. Þar kemur fram að innbrotsþjófurinn og íbúi íbúðarinnar þekkist lítillega, en þeir áttust við á gangi inn af geymslunni. Þar á árásarmaðurinn að hafa ógnað manninum með skrúfjárni, stungið því í lófa hans og lagt það að hálsi mannsins og spurt: „Hvar á ég að stinga?“

Eigandi íbúðarinnar á þá að hafa komist undan og gert lögreglu viðvart. Hún kom á vettvang, en þá var innbrotsþjófurinn flúinn. Fram kemur að nú leiti lögregla mannsins, en hann á að baki sér þrjá refsidóma.

Í samtali við DV sagði íbúinn að hann telji einu ástæðuna fyrir innbrotinu vera fíkn og ásókn í lyf. En hann á að hafa verið meðvitaður um að í íbúðinni væri að finna tiltekin lyf sem hann fær að læknisráði.