Hvaða flokkar vilja ekki að Guðlaugur Þór verði formaður?

Viðreisn, Framsókn og Samfylkingin gætu tapað fylgi ef Guðlaugur Þór verður kjörinn formaður á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina. Það besta sem gæti komið fyrir þessa þrjá flokka er óbreytt ástand hnignunar og minnkandi fylgis Sjálfstæðisflokksins.

Lykilmaður í einum ríkisstjórnarflokkanna sagði á mannamóti í vikunni að það myndi engu breyta varðandi samstarf ríkisstjórnarflokknna þótt Guðlaugur Þór bæri sigur úr bítum. Hann bætti svo því við að verst væri að Sjálfstæðisflokkurinn myndi bæta við sig fylgi ef Guðlaugur Þór yrði formaður því að hann nær til fólks sem Bjarni á engan möguleika á að tengja við.

Bjarni Benediktsson er fastur í 20 til 25 prósenta fylgi með Sjálfstæðisflokkinn á landsvísu. Hann nær ekki trúnaði út fyrir harðasta kjarna flokksins – sem fer sífellt minnkandi. Guðlaugur Þór er maður fólksins og hann heggur í fylgi annarra flokka, svo sem Framsóknar, Viðreisnar og Samfylkingar. Forystumenn þessara flokka vona innilega að Bjarni haldi velliþví að þá mun ekkert gerast í Sjálfstæðisflokknum sem truflað gæti sókn Viðreisnar, Samfylkingar og Framsóknar í fylgi sem áður leitaði til Sjálfstæðisflokksins. Ekkert nema uppstokkun forystunnar á landsfundinum getur snúið þessu við.

Þeir sem þekkja til í Sjálfstæðisflokknum og eru vel að sér í sögunni telja að ekkert muni gerast. Að engar breytingar verði og að Sjálfstæðisflokkurinn haldi áfram niður brekkuna.

Þá munu formenn hinna flokkanna fagna.

- Ólafur Arnarson