Hvað þýðir hrun Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík?

Ef úrslit kosninganna verða í námunda við niðurstöður könnunar Fréttablaðsins sem birtist í morgun yrði litið á útreið Sjálfstæðisflokksins í borginni sem söguleg tíðindi í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn mælist með 16,2 prósenta fylgi sem er ekkert annað en hrun. Undir forystu Eyþórs Arnalds hlaut flokkurinn þó 30,8 prósent í síðustu kosningum sem var næstversta útkoma Sjálfstæðisflokksins í borginni frá upphafi. Versta niðurstaðan fékkst vorið 2014 eða 25 prósent. Um alger straumhvörf er að ræða hjá flokknum en árið 1990 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 60 prósent greiddra atkvæða í borgarstjórnarkosningum. Fylgið reyndist vera á slíkum nótum í nokkur skipti á síðustu öld.

Ætla má að úrslit kosninganna á laugardaginn verði ekki svona slæm fyrir Sjálfstæðisflokkin. En þau verða samt mjög slæm. Hvað má lesa í það?

Sú niðurrifsstefna sem Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Morgunblaðið hafa rekið gagnvart borginni, borgarstjórnarmeirihlutanum og borgarstjóranum allt þetta kjörtímabil hefur beðið algert skipbrot. Miðflokkurinn er að þurrkast út í Reykjavík, fylgi Sjálfstæðisflokksins í borginni mælist í frjálsu falli og Morgunblaðið virðist hafa gefist upp ef rýnt er í efni blaðsins að undanförnu. Athygli vekur að Morgunblaðið hefur ekki birt eina einustu skoðanakönnun um fylgi flokka í Reykjavík í aðdraganda kosninganna, enginn leiðari hefur fjallað um borgarmálin nýlega og ekki er heldur vikið að þessu í vikulegum Reykjavíkurbréfum ritstjórans.

Þá er nokkuð ljóst að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins að þessu sinni höfða ekki til kjósenda. Hildi Björnsdóttur leiðtoga listans er hafnað. Aðrir frambjóðendur á lista flokksins ná ekki til kjósenda eins og margir höfðu spáð. Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Friðjón Friðjónsson hafa án efa öll sitthvað fram að færa. En þau virka bara ekki sem frambjóðendur.

Með því að kjósendur hafna niðurrifsstefnu Sjálfstæðisflokks og Miðflokks á núverandi kjörtímabil færist óánægjufylgið að hluta til yfir á Framsóknarflokkinn sem hefur engan borgarfulltrúa núna. Miðflokksfylgið skilar sér „heim“ í Framsókn, sem verður að teljast eðlilegt, og svo liggur „flóttamannastraumurinn“ úr Sjálfstæðisflokknum talsvert til Framsóknar. Þetta segir okkur vitanlega að Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn eru orðnir keimlíkir flokkar sem ekki verður túlkað sem mikið hrós fyrir Sjálfstæðisflokkinn! Að margra mati er Framsóknarflokkurinn spilltasti sjórnmálaflokkur landsins sem fengið hefur allt of mikil völd á Íslandi á undanförnum árum vegna þess að mikill ójöfnuður ríkir milli vægis atkvæða á landsbyggðinni og í þéttbýli. Reykvíkingar hafa hálft atkvæði í Alþingiskosningum saman borið við landsbyggðina. Þetta er algerlega óboðlegt og óþolandi. Framsóknarflokkurinn hefur náð að koma í veg fyrir jöfnun atkvæðisréttar í landinu. Því verður að breyta. Reykvíkingar og nærsveitamenn ættu því að varast það að veita Framsóknarflokknum brautargengi.

Verði niðurstaða kosninganna í líkingu við umrædda skoðanakönnun þannig að Sjálfstæðisflokkurinn gjaldi afhroð má gera ráð fyrir því að Hildi Björnsdóttur verði fljótlega gert að víkja sem oddviti flokksins í borginni – og verði þá áttundi einnota leiðtogi flokksins á síðustu 30 árum.

Og, það sem meira er: Þá hlýtur mjög að styttast í formannsskipti í flokknum.

- Ólafur Arnarson