Húsnæðisbætur bara fyrir útvalda: „Af því bara við segjum það“

„Þessi mismunun getur bara ekki staðist í mínum huga. Þetta er meira svona „af því bara við segjum það“ lög sem standast engin rök.“ Þetta segir Ágústa Ágústsdóttir, íbúi á norðausturlandi og foreldri barna í framhaldsnámi, í pistli á vef Vikublaðsins, um ströng skilyrði fyrir húsnæðisbótum.

Ágústa greinir frá því að dóttir hennar, sem er í framhaldsskóla á Akureyri, hafi verið fyrstu tvö árin á heimavíst en sóst svo eftir meira sjálfstæði og viljað komast í búsetu þar sem hún gæti eldað sinn eigin mat og þvegið sinn eigin þvott. Foreldrarnir hafi að sjálfsögðu tekið vel í það.

Þetta fannst okkur jákvæð þróun á þeirri leið hennar að verða sjálfstæð fullorðin manneskja.

Þar sem dóttir hennar varð ekki 18 ára fyrr en í desember 2020 þáði hún húsnæðisstyrk af sveitarfélagi sínu, Norðurþingi, fyrir 15-17 ára ungmenni. Sveitarfélagið gerði þá engar athugasemdir við húsnæðið, en sýna þurfti fram á leigusamning og staðfestingu á skólavist. Svo bar við annað hljóð í kútnum þegar hún varð 18.

Umsókninni var hafnað á þeim grundvelli laga, að húsnæðið sem hún búi í, feli ekki í sér venjulega eða fullnægjandi heimilisaðstöðu, þar sem hún hafi hvorki séreldhús eða séreldunaraðstöðu, sérsnyrtingu og baðaðstöðu.

Verulega undarlegt

Hún hefði átt rétt á bótum á heimavist, skólagarði, sambýli fatlaðra, sambýli einstaklinga á áfangaheimili, í heilli íbúð eða einbýli en ekki vegna leigu á hluta íbúðarhúsnæðis, svo sem vegna leigu á einstökum herbergjum.

Þetta þykir mér verulega undarlegt. Ef ástæða laga þessa er til að koma í veg fyrir söfnun fjölda einstaklinga í óásættanlega lítið rými, með ófullnægjandi aðstöðu miðað við fjöldann sem þar býr þá þarf að skýra það sérstaklega. Þessi mismunun getur bara ekki staðist í mínum huga. Þetta er meira svona „af því bara við segjum það“ lög sem standast engin rök.

Dóttir Ágústu nýtti andmælarétt sinn og skrifaði formlegt bréf til rökstuðnings sínu máli og fékk að sögn Ágústu mjög óformlegt svar frá sérfræðingi. „Er henni hafnað m.a. með þeim orðum að ekki sé hægt að líta framhjá lögunum, og þar sem að fleiri hafi bent á þetta, sé komið fordæmi fyrir synjun bóta í slíkum málum. En henni er velkomið að kæra úrskurðinn áfram til Úrskurðunarnefndar velferðarmála. Takk pent fyrir!“

Sjá einnig: Ágústa lætur Stein­grím fá það ó­þvegið: „Eins og of­vaxinn strákur að rifna úr frekju“

Fleiri fréttir