Hundruð þjást enn af langvarandi einkennum COVID-19: Missti allan vöðvamassa

„Ég glími við rosalega mikla þreytu daglega, alveg þannig að mig langar helst að leggjast niður á gólf og sofna. Ég fæ andþyngsli á hverjum degi, hvenær sem er dags, þó svo að ég liggi bara upp í sófa líður mér stundum eins og einhver sitji ofan á bringunni á mér.“

Sandra Liliana Magnúsdóttir, greindist með kórónaveiruna í byrjun apríl og þjáist enn af langvarandi einkennum hennar.

Hundruð Íslendinga glími enn við þrálát einkenni

Sandra er ein fjölmargra sem glíma enn við erfið eftirköst COVID-19 sjúkdómsins sem veiran veldur en talið er að hundruð Íslendinga séu enn með þrálát einkenni löngu eftir að þeir voru útskrifaðir.

Rætt var við Söndru og fleiri í sömu stöðu í ítarlegri umfjöllun á vef Fréttablaðisins.

„Við höfum hitt stöku ein­stak­linga sem eru með þessi lang­vinnu ein­kenni mörgum vikum, jafn­vel mánuðum, eftir að þau veiktust og náðu bata af bráðu ein­kennunum,“ sagði Runólfur Páls­son, for­stöðu­maður á lyf­lækninga- og endur­hæfingar­þjónustu Land­spítalans.

Vöðvamassinn á bak og burt

Þorgerður Sigurðardóttir var við hestaheilsu þegar hún veiktist í lok mars en hún var með háan hita í rúmar tvær vikur. Hún glímir enn við langvinnandi vandamál í kjölfar COVID-19 en segir þó allt vera að þokast í rétta átt.

Í lok maí eftir að erfiðasta hluta veikindanna lauk komst hún að því að veikindin höfðu útrýmt öllum vöðvamassa í líkama hennar.

Nánar má lesa um raunir Söndru, Þorgerðar auk Rakelar Grímsdóttur á vef Fréttablaðisins.