Hryðjuverkaógn á Íslandi: Mennirnir sagðir hafa sýnt árshátíð lögreglumanna sérstakan áhuga

Skipulagðar árásir mannanna sem lögreglan og sérsveit handtók í viðamiklum aðgerðum á þriðjudag eru sagðar hafa verið yfirvofandi á næstu dögum. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir þessu.

Í frétt blaðsins kemur fram að lögregla hafi sett vörð um Alþingishúsið án þess að mikið bæri og þá sé rætt um að mennirnir hafi sýnt árshátíð lögreglumanna, sem til stendur að halda í næstu viku, sérstakan áhuga.

Eins og komið hefur fram eru mennirnir, fjórir Íslendingar á þrítugsaldri, grunaðir um undirbúning hryðjuverka og ólöglegan innflutning og framleiðslu skotvopna.

Í forsíðufrétt Morgunblaðsins kemur fram að mennirnir hafi, samkvæmt heimildum, átt sér fyrirmyndir í þjóðernisöfgum á Norðurlöndum, þar á meðal fjöldamorðingjanum Anders Breivik.

Segir að lögregla hafi meðal annars fundið ofstækisáróður í húsleit í aðgerðunum en auk þess lagði hún hald á tugi skotvopna, þar á meðal hálfsjálfvirkar byssur og ógrynni skotfæra. Í frétt blaðsins kemur fram að sumar byssurnar hafi verið þrívíddarprentaðar en einnig var lagt hald á hefðbundnar byssur.