Hrósar Ásgeiri seðlabankastjóra í hástert: „Haltu áfram að taka stöðu með almenningi“

„Ég sem seðlabankastjóri er bæði auðmjúkur og glaður við þessar fregnir,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Ásgeir greindi frá því á Facebook-síðu sinni í gær að traust til Seðlabankans mælist nú 62%. Þetta er talsverð aukning frá því í fyrra þegar 45% landsmanna sögðust treysta bankanum. „Og heljarstökk frá árinu 2019 þegar það mældist 31%. Allt samkvæmt könnunum Gallup,“ sagði Ásgeir sem tók við embætti seðlabankastjóra í ágúst 2019.

Undir stjórn Ásgeirs hafa stýrivextir lækkað duglega og raunar aldrei verið lægri en eftir að hann tók við.

Fjölmörgum góðum kveðjum hefur rignt yfir Ásgeir og er ein þeirra frá Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness, sem er ekki þekktur fyrir að sitja á skoðunum sínum og raunar ófeiminn að láta menn heyra það ef svo ber undir. Hann er afar ánægður með störf Ásgeirs. Hann segir í athugasemd:

„Mesta og besta kjarabót heimila og fyrirtækja á liðnum misserum hefur verið að fá viðunandi vaxtakjör og ég vil minna á að þegar lífskjarasamningurinn var undirritaður 3. apríl 2019 voru stýrivextir Seðlabankans 4,25% en eru í dag 0,75%.

Þetta hefur leitt til þess að þúsundir heimila hafa náð að endurfjármagna sig og lækkað vaxtabyrði sína jafnvel um tugi þúsunda á mánuði að ógleymdu því að fjölmörg heimili hafa náð að losna úr viðjum verðtryggingarinnar.

Almenningur hefur loksins fengið trú á Seðlabankanum enda var búið að telja honum trú um að hátt vaxtastig hér á landi væri náttúrulögmál sem ekki væri hægt að breyta en nú hefur hið sanna komið fram að hátt vaxtastig er ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk!

Vil líka rifja upp ummæli sem skýra af hverju Seðlabankinn skrapaði nánast botninn hvað traust varðar hjá almenningi en orðrétt sagði Már Guðmundsson fyrrverandi Seðlabankastjóri í desember 2017: „Búum við þá blessun að vera ekki með óheyrilega lága vexti“

Haltu áfram að taka stöðu með almenningi og fyrirtækjum með lágu vaxtastigi og þá er ég handviss Ásgeir um að traustið á eftir að fara enn hærra upp!“