Hroki og yfirlæti veldur Framsókn skaða

Þegar fjörtíu dagar eru til sveitarstjórnarkosninga þann 14. maí, virðist átakanlegt stress heltaka suma stjórnmálamenn. Ekki síst þau Lilju Alfreðsdóttur og Sigurð Inga Jóhannsson. Framkoma þeirra á Alþingi hefur einkennst af hroka og beinlínis dónaskap gagnvart stjórnarandstöðunni. Hefur það fráleitt orðið til að bæta orðspor Framsóknar.

Skýringin er trúlega sú að flokkur þeirra er strax byrjaður að svíkja kosningaloforðin, hálfu ári eftir kjördag. Dæmi um það eru svik varðandi tugmilljarða uppbyggingu íþróttamannvirkja í Laugardal sem nú er ljóst að engum fjármunum verður varið í samkvæmt nýbirtri fjármálaáætlun ríkisins til ársins 2027.

Engir stjórnmálamenn hafa lofað þessum framkvæmdum með eins miklu yfirlæti og ráðherrar Framsóknar. Lilja bíður bara tilbúin til að taka fyrstu skóflustunguna rétt fyrir kosningar. Það mun ekki verða.

Svik hennar við íþróttahreyfinguna bætast við langan lista svikinna loforða og áforma. Til dæmis talaði hún allt síðasta kjörtímabil um að gera sjálfsagðar breytingar á ríkissjónvarpinu með því að taka báknið af auglýsingamarkaði en það var svikið. Einungis loforð og blaður í mörg ár en engar efmdir.

Og nú er byrjaður sami söngurinn rétt fyrir kosningar. En fáir taka nú mark á henni. Lilja hefur á sinni vakt látið viðgangast að erlendar efnisveitur skili ekki sköttum á Íslandi og bæti þannig samkeppnisstöðu sína við innlenda miðla.

Nú talar hún um að gera eitthvað – enda stutt til kosninga. Hvers vegna gerði hún ekkert í fjögur ár?

Lilja Alfreðsdóttir varði meiri tíma á síðasta kjörtímabili í málaferli við opinberan embættismann en að standa við loforð og yfirlýsingar. Hún dró konu fyrir dóm vegna þess að Lilja hafði brotið á henni jafnréttislög og tapað málaferlum að auki. Málið leystist ekki fyrr en það komst í hendur annars ráðherra sem snupraði Lilju, felldi málaferlin niður og lét ríkið greiða umræddri konu milljónir í bætur. Þessi sneypuför Lilju kostaði skattgreiðendur fjölmargar milljónir króna. En álitshnekkinn ber Lilja ein.

Fleira verður ekki nefnt hér að sinni en hroki Lilju Alfreðsdóttur er farinn að skaða flokk hennar. Hún minnir orðið æ meira á Vigdísi Hauksdóttur sem sat á þingi fyrir Framsókn, hrökklaðist úr flokknum yfir í Miðflokkinn, var kjörin í borgarstjórn hann og hefur hagað sér svo dónalega á þeim vettvangi að hún hefur nú lyppast þar niður og einnig nánast afmáð Miðflokkinn í Reykjavík, ef marka má nýjustu skoðanakannanir.

Trúlega mun Lilja ekkert læra af örlögum Vigdísar. Sjáum til. Dramb er falli næst.

- Ólafur Arnarson