Hring­a­vit­leys­a á kostn­að skatt­greið­end­a

Nú streymir fram á sviðið margt okkar klárasta og besta fólk og reynir að réttlæta fyrir sjálfu sér og öðrum þá firru að ríkið verji milljörðum í kaup á húsi fyrir menntavísindasvið Háskóla Íslands vestur á Melum. Ríkið hyggst kaupa Hótel Sögu til að skipta á því húsi og gamla húsi Kennaraháskólans við Stakkahlíð sem nú hýsir menntavísindasviðið.

Undarlegar fléttur virðast vera í spilunum. Félagsstofnun stúdenta og Fjármálaráðuneytið hyggjast í sameiningu kaupa Hótel Sögu. Að þeim kaupum afstöðnum ætlar Fjármálaráðuneytið í makaskipti við Háskóla Íslands þannig að þegar upp er staðið er ríkið að kaupa sérhannað kennslu- og menntavísindahúsnæði af Háskólanum til að hann geti keypt hótelhúsnæði undir menntavísindasvið HÍ.

Síðan þarf að ráðast í gagngerar og rándýrar viðgerðir og breytingar á Hótel Sögu til að húsnæðið henti menntavísindasviði. Augljóslega þarf ríkið að ráðast í umfangsmiklar breytingar á húsnæðinu í Stakkahlíð eigi það að nýtast til einhvers þegar menntavísindasvið er horfið úr húsinu.

Geggjunin er alger og peningasóunin yfirgengileg. Eini sjáanlegi tilgangurinn með hringavitleysunni er að ríkið vilji bjarga Bændasamtökunum út úr skuldafeni sem þau hafa sjálf komið sér út í. Samtökin hafa skuldsett sig fram úr hófi og veðsett Bændahöllina upp í rjáfur. Væntanlega eru það pólitísk hrossakaup milli Framsóknar og Sjálfstæðisflokks við stjórnarmyndunina sem hafa leitt til þessarar niðurstöðu. Ekki væri það í fyrsta sinn sem þessir tveir flokkar sólunda fjármunum skattgreiðenda í þágu hagsmunaaðila í íslenskum landbúnaði.

Í ljós hefur komið að Háskólinn virðist lítið vita hvernig hann ætlar að breyta Hótel Sögu til að húsnæðið nýtist sem kennsluhúsnæði. Því er lofað að ytra byrði hússins breytist sem minnst. Ytra byrðið er nú samt ekki það sem gerir Sögu að perlu vesturbæjarins heldur innviðirnir, innréttingarnar, veitinga- og veislusalirnir sem hafa skapað minningar Reykvíkinga og annarra landsmanna í tæp 60 ár. Þetta eru hin raunverulegu menningarverðmæti sem verður kastað á glæ með ærnum tilkostnaði til að leysa tilbúinn „húsnæðisvanda“ menntavísindasviðs HÍ.

Engu máli skiptir hve margir prófessorar og emeritusar eru dregnir út úr fílabeinsturnum sínum og leiddir fram á sviðið til að lofsyngja eyðilegginguna og fjárausturinn. Óráðsían er svívirðileg. Vilji ríkið skera Bændasamtökin niður úr skuldasnörunni væri hreinlegra og skaðminna að ríkið yfirtæki skuldir Bændahallarinnar með þeirri kvöð að ávallt skuli vera hótel- og veitingarekstur í menningarvöggu vesturbæjarins.

Vandséð er að hvaða notum húsnæði Kennaraháskólans við Stakkahlíð gæti komið. Sennilega er ekkert hlutverk til. Verður það ekki bara rifið og byggðar íbúðarblokkir á lóðinni? Eða ætlar ríkið að breyta húsinu í hótel? Það væri eftir öðru: Breyta Hótel Sögu í stúdentaíbúðir og kennslustofur og breyta svo gamla Kennaraháskólanum í hótel. Vitanlega er það galin stjórnsýsla og stjórnleysi.

Sporin hræða. SS sláturhúsið í Laugarnesi var tekið undir listaháskóla, Trésmiðjan Víðir undir opinbera kontóra og lekt húsnæði Mjólkurstöðvarinnar undir þjóðskjalasafn með þekktum afleiðingum. Allt kostaði þetta stórfé sem hægt hefði verið að nýta mun betur, til dæmis í húsnæði sem þjónað hefði tilgangi sínum.

- Ólafur Arnarson