Hrefna ó­sátt: Fáu krónurnar sem hún fékk voru ekki þess virði

„Því skora ég á stjórn­völd að leggja stofnunina niður og finna ein­faldari, skil­virkari og mann­úð­legri leið til að sinna verk­efnum hennar,“ segir Hrefna Krist­manns­dóttir, jarð­efna­fræðingur og prófessor emi­ritus, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag.

Í grein sinni skrifar Hrefna um sam­skipti sín við Trygginga­stofnun. Leggur hún til að stofnunin verði lögð niður. Þá segir hún frá reynslu vina og vanda­manna af sam­skiptum við stofnunina.

Hrefna byrjar grein sína á að vísa í skýrslu Ríkis­endur­skoðunar sem sýndi á­kveðnar brota­lamir í fram­kvæmd al­manna­trygginga­laga og með­ferð stjórn­sýslu­mála hjá Trygginga­stofnun ríkisins. Þá hefði komið fram að að­eins um 10% líf­eyris­þegar hefðu fengið réttar greiðslur.


Ekki óvænt tíðindi

„Fyrir þá sem átt hafa í sam­skiptum við þessa stofnun eru þetta ekki ó­vænt tíðindi,“ segir Hrefna sem segir að nokkru eftir að hún fór á eftir­laun hafi henni verið bent á að sam­kvæmt þá­gildandi lögum sætti grunn­líf­eyrir ekki skerðingu vegna greiðslna frá líf­eyris­sjóði ríkis­starfs­manna og gæti hún átt þar nokkurn rétt.

„Ég hafði því sam­band við Trygginga­stofnun og er skemmst frá því að segja að nær ekkert stóðst í af­greiðslum hennar og var ég því fegnust þegar ný lög bundu sjálf­krafa enda á þessi sam­skipti. Þær fáu krónur sem ég fékk voru alls ekki virði þess vesens og leiðinda sem þær ollu. Svo virtist sem starfs­menn hefðu lítinn skilning á hvernig ætti að gera greiðslu­á­ætlanir og skömmuðust sín ekkert fyrir það,“ segir hún og nefnir lítið dæmi máli sínu til stuðnings.

„Sem dæmi má nefna að eitt sinn kom ég að vori með ný­gerða skatt­skýrslu sem grunn­lag fyrir greiðslu­á­ætlun. Síð­sumars fékk ég svo skila­boð frá stofnuninni um að „nú hefðu borist gögn frá skatta­yfir­völdum“ og því yrði greiðslu­á­ætlun breytt. Þar sem skatt­skýrslan hafði ekkert breyst í með­ferð skatta­yfir­valda spurði ég stofnunina hverju þetta sætti. Svarið sem ég fékk var að „við þurfum að hafa stað­fest af­rit af skýrslunni“!“

Þras og barátta í tíu mánuði

Hrefna segir að margir vina og ættingja hennar eigi af­komu sína undir af­greiðslu stofnunarinnar og þeir segi farir sínar ekki sléttar.

„Ör­yrki í fjöl­skyldu minni fékk endur­nýjað ör­orku­mat frá lækninum sínum, sem er einn helsti sér­fræðingur landsins í sjúk­dómnum sem hrjáir við­komandi. Engu að síður var ör­yrkinn kallaður í endur­mat hjá lækni sem í upp­hafi við­tals viður­kenndi að hafa aldrei heyrt talað um sjúk­dóminn sem hrjáði við­komandi. Engu að síður úr­skurðaði hann á grund­velli staðlaðs spurninga­lista stofnunarinnar að ör­yrkinn væri ekki ó­vinnu­fær. Við tók 10 mánaða þras og bar­átta með veru­legum lög­manns- og læknis­kostnaði þar til stofnunin lét undan síga. Á meðan var ör­yrkinn bóta­laus og hefur þetta mál vafa­laust tafið veru­lega það hæg­fara bata­ferli sem hann og læknar vonuðust til að hann væri á.“

Full bók af átakanlegum sögum

Þá segir hún frá vini hennar sem er líf­eyris­þegi en sá lenti í því að Trygginga­stofnun hætti allt í einu að greiða honum heimilis­upp­bót.

„Eftir­grennslan leiddi í ljós að á­stæðan var sú að barn hans sem flutti utan til vinnu hafði skráð lög­heimili hjá honum á meðan. Engar skýringar dugðu og varð að breyta skráningunni. Þar með var hins vegar ekki öll sagan sögð því þegar barn hans kom í stutt sumar­frí og dvaldi hjá honum kom óðara bréf frá stofnuninni sem tjáði líf­eyris­þeganum að stofnuninni hefðu borist upp­lýsingar um að barnið byggi hjá honum og því yrði heimilis­upp­bót hans felld niður. Hægt væri að fylla bók með mörgum mun á­takan­legri sögum um fram­komu Trygginga­stofnunar gegn þessum þegnum þjóðarinnar, sem eru nógu sveltir fyrir þótt ekki sé níðst á þeim og haft af þeim það naumt skammtaða viður­væri sem lög gera ráð fyrir.“

Segist Hrefna því skora á stjórn­völd að leggja stofnunina niður og finna ein­faldari, skil­virkari og mann­úð­legri leið til að sinna verk­efnum hennar.